Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-,iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segist ekki hafa tekið neina ákvörðun um það hvort hún ætli að bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins á næsta landsfundi flokksins fari svo að Bjarni Benediktsson sækist ekki eftir endurkjöri.
Spurð hvort hún íhugi að bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins segir Áslaug Arna:
„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um slíkt. Við erum með formann sem hefur ekki gefið út að hann sé á förum og það er langt í næsta landsfund. Ég hef metnað fyrir Sjálfstæðisflokknum eins og aðrir í forystu hans.“
Nú þurfi hún að einbeita sér að því að tala við kjósendur og afla flokknum aukins fylgis.
„Ég ætla að einbeita mér að því að klára mín verk og hef ekki tekið ákvörðun um næstu skref.“
Fylgi Sjálfstæðisflokksins er það lægsta frá stofnun flokksins en hann mældist til að mynda með 13,9% í nýjustu könnun Maskínu og 17,1% hjá Gallup.
Hefur þú áhyggjur af stöðu flokksins?
„Ég hef sagt það í viðtölum að ég hafi miklar áhyggjur af stöðunni. Við þurfum að horfa í eigin barm og við vorum að ræða það við flokksmenn um helgina, stöðu flokksins, mikilvægi þess að fara aftur í kjarnann okkar, skilgreina okkur sjálf og framkvæma stefnu okkar sem á við mun fleiri landsmenn en gefa sig nú upp að Sjálfstæðisflokknum. Við þurfum að ná til mun breiðari hóps en við gerum í dag.“