Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur enn ekki tekið ákvörðun í máli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara.
„Þetta mál er bara í vinnslu og það kemur niðurstaða einhvern tíma næstu dagana,“ sagði Guðrún við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag.
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari lagði í síðasta mánuði til við dómsmálaráðherra að Helgi Magnús yrði leystur frá störfum tímabundið vegna ummæla hans í garð hinsegin fólks og útlendinga.
Guðrún sagðist í samtali við mbl.is fyrir viku síðan vera að bíða eftir áliti lögfræðinga utan úr bæ og myndi síðan komast að niðurstöðu í málinu.
Helgi Magnús var í viðtali í Dagmálum í síðustu viku þar sem hann kvaðst þess fullviss að dómsmálaráðherra hafnaði beiðni ríkissaksóknara um að hann yrði leystur frá störfum tímabundið.