Erlendur karlmaður hefur verið dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir innflutning á tæplega 900 gr af kókaíni, en efnin bar hann með sér í flugi frá Zurich í Sviss í júní á þessu ári.
Í dómi Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að um hafi verið að ræða 874,49 gr af kókaíni með 53-88% styrkleika, en hann hafði falið efnin innvortis. Var hann ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot af þeim sökum, en efnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi.
Maðurinn, Kennedy Aparecido Silva De Almeida, játaði brot sitt skýlaust við þingfestingu málsins og var það því dæmt sem játningarmál.
Tekið er fram í dóminum að ekki verði séð að Almeida hafi verið eigandi efnanna, heldur hafi hann samþykkt að flytja þau til landsins.
Auk þess að hljóta 14 mánaða dóm var Almeida gert að greiða 2,2 milljónir í sakarkostnað, en þar á meðal er meðal annars röntgenskoðun vegna efnanna sem voru innvortis, matsgerðar á efnunum og þóknun verjanda hans.