Lesfimiprófin sem lögð eru fyrir grunnskólabörn á Íslandi eru nú til endurskoðunar. Slök frammistaða grunnskólabarna á prófunum hefur vakið athygli eftir umfjöllun Morgunblaðsins í gær.
Í tilkynningu frá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu segir að starfsfólk þessarar nýju stofnunar vinni að því að endurskoða prófin.
Fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins í gær að stór hluti nemenda á yngsta stigi næði ekki settum viðmiðum þegar kemur að lestrarfærni.
Að loknum 1. bekk viti sumir nemendur ekki hvernig allir bókstafir stafrófsins hljóma.
Með hverjum nýjum árgangi fjölgar þessum börnum. Á sama tíma fækkar þeim stöðugt sem ná viðmiðunum.
Þá greindi mbl.is frá því í morgun að 40 prósent nemenda í 6. bekk næðu ekki grunnviðmiði í lesfimi.
Þegar litið er til síðasta árs í öllum árgöngum þá fækkar þeim nemendum alls staðar sem ná þessu grunnviðmiði.
Viðmiði sem er hannað með það í huga að 90 prósent nemenda eigi að ná því.
Í tilkynningu Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, sem tók við af Menntamálastofnun eftir að hún var lögð niður fyrr á þessu ári, segir að endurskoðunin verði gerð í nokkrum skrefum.
Fyrsta breytingin verði sú að nú í september taki nemendur í 4. og 5. bekk sama prófið.
Það sama muni gilda fyrir 6. og 7. bekk, sem deila muni prófi.
Þá verði aðeins eitt próf fyrir allt unglingastigið.
Tekið er fram að breytingin hafi ekki áhrif á það hvernig prófin verði lögð fyrir, en það að nemendur taki sama prófið oftar muni auðvelda eftirlit með stöðu nemenda og framförum þeirra.
„Það er líka rétt að fram komi að þó að sama prófið sé lagt fyrir oftar en einu sinni þá líður nægilega langur tími á milli prófanna til að þjálfunaráhrif komi ekki fram,“ segir í tilkynningunni.
Gott sé þó að hafa í huga að þegar nemendur lesi nýtt próf, eins og til dæmis nemandi sem fari úr 7. bekk í 8. bekk í haust, megi búast við því að lesin orð á mínútu standi í stað eða að þeim fækki lítillega vegna þess að nýi textinn sé þyngri.
„Við minnum svo á að góð lestrarfærni er undirstaða alls náms og í þessu tilviki sem öðrum þá skiptir hvatning og fyrirmynd foreldra miklu máli.“