Lögfræðikostnaður félagsins rúmar 12 milljónir

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Heildarkostnaður við ýmsa útgjaldaliði sem Blaðamannafélag Ísland (BÍ) lagðist í í kjölfar uppsagnar Hjálmars Jónssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, var hátt í tvær milljónir króna. Þá er heildarkostnaður BÍ við aðkeypta lögfræðiþjónustu það sem af er ári 12,6 milljónir.

Þetta kemur fram í svari BÍ við fyrirspurn 26 félagsmanna sem send var félaginu 18. ágúst.

Hafa áhyggjur af ástandinu

Flestir útgjaldaliðirnir sem hópurinn spurði út í tengdust uppsögn Hjálmars Jónssonar en eftir að honum var sagt upp sem framkvæmdastjóra félagsins í byrjun árs var endurskoðunarstofan KPMG fengin til að gera úttekt á tilteknum færslum í bókhaldi félagsins.

Þegar sú úttekt lá fyrir óskaði stjórn BÍ eftir áliti lögfræðistofunnar LOGOS um mögulega refsiábyrgð Hjálmars vegna háttsemi hans í starfi.

Mikið af útgjöldunum sem spurt var út í tengdust uppsögn …
Mikið af útgjöldunum sem spurt var út í tengdust uppsögn Hjálmars Jónssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra feálgsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar fyrirspurnin var send út ræddi Fríða Björnsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri BÍ og ein undirritaðra, ástæðu hennar við Morgunblaðið.

„Ég held að okkur, sem höfum áhyggjur af þessu ástandi, finnist að það sé búið að eyða með ólíkindum,“ sagði Fríða.

Bókhald tekið út óg saknæmi metið

Í svari BÍ við fyrirspurninni sem sent var út um helgina er greint frá kostnaðinum við alla þá útgjaldaliði sem spurt var út í.

Heildarkostnaður við úttekt KPMG á tilteknum bókhaldsfærslum í kjölfar uppsagnar Hjálmars Jónssonar var 694.710 krónur en kostnaður vegna starfa óháðs bókara frá Verum bókhaldi sem fór yfir bækur félagsins í kjölfar úttektar KPMG var 381.052 krónur.

Þá var kostnaður við álit lögmannsstofunnar LOGOS á úttekt KPMG og mögulegri refsiábyrgð Hjálmars Jónsonar 620.000 krónur en endurmat stofunnar í kjölfar svarbréfs frá Hjálmari var 127.720 krónur.

Leiddi í ljós alvarlega vankanta

Heildarkostnaður við ofangreinda liði er 1.823.482 kr. en í upphafi svarbréfsins gerir stjórn BÍ grein fyrir af hverju farið var í þessa kostnaðarliði en þar segir meðal annars:

„Úttekt KPMG á tilteknum bókhaldsfærslum félagsins leiddi í ljós alvarlega vankanta á innra eftirliti félagsins og var því komið á framfæri við stjórn að verulegra úrbóta væri þörf á rekstri þess til að bæta frammistöðu og koma í veg fyrir veikleika í framtíðinni sem gætu leitt af sér verulegt tap eða skekkjur.“

Þá eru meint brot Hjálmars sem upp komu í lögfræðiálitinu rakin. 

„Meint brot fólust í lánveitingum sem hann veitti sjálfum sér af fjármunum félagsins án samþykkis stjórnar, greiðslu ökutækjastyrks og dagpeninga umfram heimildir og mögulega með kaupum á lausafé umfram ástæður og til persónulegra nota,“ segir í bréfinu´.

Þar sagði sömuleiðis að úttektin og lögfræðiálitið væri til þess að bæta starfsemi félagsins.

„Stjórn BÍ taldi að með úttekt KPMG og lögfræðiáliti LOGOS væri málið nægilega upplýst til að hægt væri að bæta vinnubrögð og ferla og koma í veg fyrir að að viðlíka háttsemi geti átt sér stað aftur. “

Ýmsar ástæður fyrir lögfræðiþjónustu

Í fyrirspurninni frá félagsmönnunum 26 var einnig var spurt út í kostnað vegna utanaðkomandi sérfræðinga á síðasta aðalfundi félagsins, sem haldinn var í apríl en þar sáu utanaðkomandi lögfræðingar um að stýra fundinum og færa fundargerð. Kostaði það félagið 374.800 krónur.

Þá kemur fram að heildarkostnaður félagsins vegna aðkeyptrar lögfræðiþjónustu það sem af er ári er nemur 12.687.402 krónur.

Sá kostnaður kemur til vegna ýmissa mála, meðal annars vinnu við kjarasamninga, endurmats á hlutdeild BÍ í höfundaréttargreiðslum, ýmissa réttindamála félagsfólks og lögsóknar BÍ gegn ríkinu vegna aðgengis blaðamanna að
hamfarasvæðum.

BÍ hefur skipt við fimm lögfræðistofur á árinu vegna en þær eru LOGOS, Réttur, LMG lögmenn, LAG-lögmenn og Magna.

Loks kemur fram í bréfinu að heildarkostnaður vegna endurskoðunar reikninga félagsins sé 800 þúsund krónur í ár samkvæmt samningi við KPMG.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert