Mótmæla „yfirgengilegu ofbeldi lögreglunnar“

Mótmælin fóru vel og friðsamlega fram bæði að sögn lögreglu …
Mótmælin fóru vel og friðsamlega fram bæði að sögn lögreglu og mótmælenda. mbl.is/Árni Sæberg

Samtökin No borders stóðu fyrr í dag fyrir mótmælum gegn valdníðslu og ofbeldi lögreglu fyrir utan lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Fyrir mótmælin sendu samtökin frá sér fjórar kröfur en efst á blaði var að 19. grein lögreglulaga verði felld úr gildi en hún fjall­ar um skyldu til að hlýða fyr­ir­mæl­um lög­reglu.

Þá er þess krafist að vopnvæðingu lögreglu verði hætt og að „fallið verði frá öllum áformum um fangabúðir ætluðum fullorðnu fólki og börnum á flótta“ en með því er átt við svokölluð lokuð búsetuúrræði.

Loks fer hópurinn fram á að „lögreglufólk axli persónulega ábyrgð á þátttöku sinni í níðingsverkum“.

Síendurtekin brot á stjórnarskrárvörðum rétti

Um 50 mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan lögreglustöðina klukkan fimm síðdegis en Pétur Eggertz var einn þeirra en hann kom einnig að undirbúningi mótmælanna. Pétur hefur verið virkur í umræðunni um lögreglu og mótmæli á samfélagsmiðlum undanfarið.

Spurður hvað kom til að blásið var til þessara tilteknu mótmæla segir Pétur:

„Við erum að mótmæla yfirgengilegu ofbeldi lögreglunnar í garð mótmælenda og síendurteknum brotum á stjórnarskrávörðum rétti mótmælanda til friðsamlegra mótmæla.

Það sem kyndir undir þetta eru árásirnar í Skuggasundi, árásirnar fyrir utan Alþingi 2019 og árásirnar fjórða júní fyrir utan Alþingi þar sem lögreglan ræðst ítrekað gegn friðsælum mótmælendum og athæfið næst allt á myndband.“

Þá segir Pétur að varðstjóri innan lögreglunnar sem hefur ítrekað brotið af sér í starfi gegn mótmælendum „beitt í framlínunni á mótmælum“. 

Pétur Eggertz sést hér ávarpa mótmælendur.
Pétur Eggertz sést hér ávarpa mótmælendur. mbl.is/Árni Sæberg

Segir stefnubreytingu innan lögreglunnar

„Ofan á þetta kemur svo að lögreglan er búin að vopnvæða sig með rafbyssum og það er gert án þess að breytingarnar á lögunum séu bornar undir Alþingi,“ segir Pétur og bætir við að stefnubreyting virðist hafa orðið innan lögreglunnar þegar kemur að mótmælum og valdbeitingu.

„Lögreglan heldur því fram að hún megi nota piparúða gegn mótmælendum þrátt fyrir að þeir skapi enga hættu eða fari út fyrir þann ramma sem skilgreinir borgaralega óhlýðni. Það virðist hafa orðið mikil stefnubreyting hjá lögreglunni að hún ætli að virða að vettugi réttindi almennra borgara og ætli sér að þagga niður þau mótmæli sem þeim hentar ekki,“ segir Pétur.

Hann bætir við að helst séu það mótmælendur gegn þjóðarmorði í Palestínu og þeir sem láta sig mannréttindamál hælisleitenda helst varða sem verða fyrir barðinu á þessu.

Fóru vel fram

Spurður hvernig mótmælinfóru fram segir Pétur: „Þau hafa farið friðsamlega fram. Það hefur ekki komið til neinna átaka við lögreglu og mótmælendur fengið að fylgja sínum réttindum.“

Þetta staðfestir Ásmundur Rúnar Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöðinni á Hverfisgötu en hann segir að mótmælin hafi gengið vel fyrir sig.

Aðspurður vildi Ásmundur þó ekki tjá sig um kröfur mótmælanda.

Mótmælendur byrjuðu að safnast saman klukkan 17.00 í dag.
Mótmælendur byrjuðu að safnast saman klukkan 17.00 í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert