Franski ljósmyndarinn og leiðsögumaðurinn Kevin Pages sem búsettur er hér á landi náði í dag myndbandi af ferðamanni sem var hætt kominn við gosopið á Reykjanesskaga.
Í myndbandinu sést hvernig ferðamaðurinn hefur farið yfir glænýtt hraun, nánast alla leið upp að gosopinu þar sem hann stendur og tekur sjálfsmyndir.
Þegar mbl.is náði tali af höfundi myndbandsins var hann enn staddur á svæðinu þar sem hann var með hópi af erlendum ferðamönnum.
„Ég var að fljúga drónanum að gosinu þegar ég sá eitthvað óvenjulegt, ég flaug honum nær og sá þá að þetta var maður og hann veifaði mér, bara eins og hann væri að heilsa,“ lýsir Pages.
Hann segir að honum hafi verið brugðið en að hann hafi líka fundið fyrir pirringi.
„Í síðustu gosum hafi þau ekki viljað að fólk komi að svæðinu og það er eflaust út af svona hegðun. Ferðamenn geta nú loksins notið eldsumbrotanna úr öruggri fjarlægð en auðvitað þurfa einhverjir að eyðileggja upplifunina fyrir öllum,“ segir Pages.
Spurður hvort að hann hafi séð hvort að ferðamanninum hafi tekist að koma sér til baka segir Pages að hann hafi reynt að hafa augun á honum en að á endanum hafi rafmagnið í rafhlöðunni í drónanum klárast.
„Hann byrjaði að ganga til baka en hann þurfti auðvitað að fara yfir nýtt hraunið og í drónanum gat ég séð rauðar glæður alls staðar í kringum hann. Á einum tímapunkti sá ég hann hrasa og hraunið undir honum brotnaði þannig að hann datt næstum því á það. Þá byrjaði hann allt í einu að hlaupa út um allt,“ lýsir Pages og bætir við að hann voni innilega að hann hafi komist heill á húfi til baka.
Þá segir Pages að hann hafi hringt í lögreglu vegna atviksins en hún sagðist ekki geta aðhafst neitt nema að það liti út fyrir að maðurinn væri að biðja um hjálp en svo var ekki.
Að lokum furðar Pages sig á því að ekki séu frekari afleiðingar fyrir fólk sem gerir svona lagað.
„Fólkið er ekki sektað. Mér finnst að þegar lögreglunni berst þessi ábending ætti hún að koma á svæðið og bíða eftir manninum og sekta hann.“