Öllum sagt upp: „Fjarri því að vera gjaldþrota“

Vestfirskir verktakar hafa sagt upp öllu starfsfólki. Garðar Sigurgeirsson, annar …
Vestfirskir verktakar hafa sagt upp öllu starfsfólki. Garðar Sigurgeirsson, annar eigenda fyrirtækisins, stefnir á að halda áfram með minni einingu. Samsett mynd/Aðsend/mbl.is/Eggert

Öllum starfsmönnum verktakafyrirtækisins Vestfirskir verktakar hefur verið sagt upp störfum. 32 starfsmenn störfuðu hjá fyrirtækinu í sumar en 27 þegar ákvörðun um að segja starfsmönnum upp var tekin.

Fyrst var greint frá uppsögnunum á bb.is.

Garðar Sigurgeirsson er annar tveggja eigenda fyrirtækisins ásamt Sveini Inga Guðbjörnssyni. Garðar segir að þungur rekstur, slæm verkefnastaða auk þess sem til standi að þeir Sveinn slíti samstarfinu sé ástæða uppsagna.

Fyrirtækið var stofnað 2003 og að sögn Garðars hefur það áður þurft að fækka starfsfólki yfir vetrartímann.   

„Þetta snýst um endurskipulagningu til framtíðar,“ segir Garðar en bætir við: „Fyrirtækið er fjarri því að vera gjaldþrota,“ segir Garðar. 

Öllum starfsmönnum var sagt upp frá og með síðustu mánaðamótum en að sögn Garðars er fyrirtækið skuldbundið til þess að klára verkefni við brúargerð og seiðaeldisstöð á Nauteyri.

Stefnir á að halda áfram í minni einingu 

„Við verðum alltaf að fækka við okkur á veturna en af því að breyting er á eignarhaldinu þá ákváðum við að gera þetta svona,“ segir Garðar. 

„Verkefnastaðan undanfarin ár hefur verið mjög góð á veturna líka. En nú í vetur sjáum við ekki fram á nein verkefni,“ segir Garðar. 

„Ég stefni að því að halda áfram með minni einingu þá geta kannski einhverjir af þessum mönnum fengið vinnu áfram hjá mér. En það skýrist innan tveggja vikna hvernig þetta verður og í hvaða átt þetta fer,“ segir Garðar. 

Horfir til næsta sumars 

Hann segir þó ljós við enda ganganna og sér fram á betri verkefnastöðu frá og með næsta sumri. Meðal annars býst hann við því að bygging nýrrar kalkþörungaverksmiðja í Súðavík hefjist.

„Það eru stærri verkefni framundan og ég horfi svolítið til þess. Það eru vonandi ekki allir þessir menn að missa vinnu til frambúðar,“ segir Garðar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert