Pósturinn dreifir áfengi fyrir Smáríkið

Óskar Jónsson, eigandi Smáríkisins og Sigríður Heiðar, forstöðumaður söludeildar hjá …
Óskar Jónsson, eigandi Smáríkisins og Sigríður Heiðar, forstöðumaður söludeildar hjá Póstinum. Ljósmynd/Aðsend

„Veruleikinn er sá að sem stendur er hægt að kaupa áfengi á netinu. Þetta helst í hendur við breytta kauphegðun sem kallar á víðtækari þjónustu af hálfu Póstsins en áður. Við leggjum áherslu á að viðkvæmar vörur séu fluttar með rekjanlegum hætti og berist réttum kaupanda. Það er gert með því að nýta rafræna auðkenningu,“ segir Sigríður Heiðar, forstöðumaður söludeildar hjá Póstinum, í tilkynningu um samstarf fyrirtækisins við Smáríkið, netverslun með áfengi.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Pósturinn og Smáríkið hafi verið í samstarfi síðan í vor.

Þurfi að ganga úr skugga að viðtakandi hafi aldur

Segir þar að netverslun með áfengi hafi verið áberandi í umræðunni að undanförnu og segir Sigríður að fleiri verslanir hafi bæst í hóp þeirra sem bjóða upp á áfengi í heimsendingu. Margir velti fyrir sér auknu aðgengi og þeirri óvissu sem skapast um hvort viðtakandi hafi aldur til að taka við vörunni.

Nefnir forstöðumaðurinn að að þegar kemur að því að dreifa viðkvæmum varningi á borð við lyf og áfengi þurfi að ganga úr skugga um að viðtakandi hafi aldur eða heimild til að taka á móti sendingunni.

„Komin er reynsla á samstarf Póstsins og Smáríkisins, netverslunar með öl og létta drykki. Þegar viðskiptavinur kaupir áfengi hjá þeim og fær það sent heim með Póstinum er hann krafinn um rafræna auðkenningu við afhendingu,“ segir Sigríður og nefnir að því fylgi mikil ábyrgð að dreifa vörum sem þessum.

„Við ætlum okkur áfram að vera traustur samstarfsaðili þegar kemur að dreifingu en hér er komin betri leið til að meðhöndla viðkvæmar vörur. Í því sambandi gegnir rafræn auðkenning lykilhlutverki.“

Munu senda á höfuðborgarsvæði og út á land

Í tilkynningunni kemur fram að Smáríkið hefur verið starfrækt í um hálft ár og nýtt sér þjónustu Póstsins frá því í vor til að koma vörunni til skila.

Óskar Jónsson, eigandi Smáríkisins, segir að þó stutt sé frá stofnun hafi fyrirtækið náð merkum áfanga nýlega þegar það viðskiptavinir þess voru orðnir tíu þúsund talsins. 

„Við ákváðum að leita til Póstsins til að geta sent bæði á höfuðborgarsvæðinu og út á land. Svo veitir það okkur mikið öryggi að geta fullvissað okkur um að varan berist réttum aðila,“ segir eigandinn.

Umdeilt málefni

Umræðan um netsölu áfengis hefur verið mikil í samfélaginu síðustu mánuði. Fé­lög heil­brigðis­stétta og for­varn­ar­sam­taka skoruðu á yf­ir­völd í síðustu viku um að bregðast við yf­ir­stand­andi lýðheilsuógn vegna stór­auk­inn­ar net­sölu áfeng­is.

Þá hefur einnig verið rætt um hvort netverslanirnar brjóti í bága við lög  en sam­kvæmt áfeng­is­lög­um er ÁTVR eina fyrirtækið sem er með einka­leyfi til áfeng­is­sölu í smá­sölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert