Réttnefni sáttmálans „Seinkunarsáttmáli“

Samgöngusáttmáli var til umræðu á fundi borgarstjórnar.
Samgöngusáttmáli var til umræðu á fundi borgarstjórnar. Samsett mynd

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur, lýsti uppfærðum samgöngusáttmála sem tímamótum. Um væri að ræða eina mestu innviðauppbyggingu Íslandssögunnar sem hefði í för með sér mikla lífskjarabót.

Þetta kom fram í máli hans á fundi borgarstjórnar í dag þar sem uppfærður samgöngusáttmáli var til umræðu. 

Einar sagði talsverð tíðindi í uppfærðum samgöngusáttmálanum og að forsenda þess að hægt væri að ráðast í þetta verkefni væri söguleg sátt þvert yfir pólitíska ásinn.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru ekki jafn jákvæðir í garð uppfærða sáttmálans.

Nauðsynlegt að fjölga alvöru valkostum

Frá undirritun samgöngusáttmálans árið 2019 hefur íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 21 þúsund og hátt í 16 þúsund bifreiðar bæst í umferðina. Er það hraðari fólksfjölgun en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Einar sagði nauðsynlegt að bregðast við þessari þróun og fjölga alvöru valkostum í samgöngum. Telur hann langflesta í borgarstjórn sammála um að bæta þurfi almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Tekist á um mikilvægustu framkvæmdina

Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, spurði á fundinum hvað hefði vakið fyrir borgarstjóranum, þegar hann samþykkti við uppfærslu sáttmálans, að gæta ekki hagsmuna Reykvíkinga. Vísaði hún þá í seinkun framkvæmda við mislæg gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar sem nú eru á dagskrá árið 2030. Framkvæmdirnar voru í forgangi í sáttmálanum 2019.

„Þetta er ein arðbærasta framkvæmd sáttmálans,“ sagði Marta.

Einar sagði gatnamótin vissulega mikilvæg. Hann sagði þó borgarlínu vera það verkefni sem gæti skilað mestum árangri hraðast til þess að bæta flæði umferðar.

Einar sagði talsverðan þrýsting á að færa framkvæmdirnar við gatnamótin jafnvel enn aftar. Hann hefði viljað fá þau fyrr en þetta hefði verið niðurstaðan. Hann segir öll sveitarfélög hafa þurft að gefa eitthvað eftir en 

Marta spurði hvort borgarstjóri hefði beitt sér fyrir því að gatnamótin yrðu í forgangi.

Einar sagði niðurstöðuna afsprengi vinnu samninganefnda.

Einar „nýbyrjaður í pólitík“

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði mikilvægt að hafa forsöguna í huga þegar skoða ætti uppfærðan samgöngusáttmála.

„Það má ef til vill virða Einari Þorsteinssyni borgarstjóra það til vorkunnar að hann er nýbyrjaður í pólitík og hefur þess vegna ekki verið aðili að öllum eldri plöggunum sem hafa verið undirrituð um samgöngumál í Reykjavík,“ sagði Kjartan.

Kjartan taldi engu að síður að Einar ætti að vera betur að sér í sögunni um Samgöngusáttmálann þar sem hann hefði nú starfað sem fréttamaður í mörg ár. 

„Mjög skrítið að hann skuli koma hérna og telja að um mikið tímamótaplagg sé að ræða.“

Telur Kjartan réttnefni sáttmálans vera „Seinkunarsáttmáli“.

Hefði verið hægt að gera hlutina með ódýrari hætti

Sagði Kjartan jafnframt að það hefði þurft að endurskoða verkefni sáttmálans með það í huga hvort öll verkefni hans væru nauðsynleg og arðsöm. 

„Það bendir nefnilega margt til þess að mörgum verkefnum sáttmálans væri hægt að ná með miklu einfaldari, hagkvæmari og ódýrari hætti en nú er stefnt að.“

Nefndi hann sem dæmi Fossvogsbrú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert