Segist reikna með að gefa út boð í vikunni

„Aðgerðaáætlunin er fjölbreytt áætlun og verður kynnt þegar hún kemur,“ …
„Aðgerðaáætlunin er fjölbreytt áætlun og verður kynnt þegar hún kemur,“ segir barnamálaráðherra, níu mánuðum eftir að svartar niðurstöður PISA urðu ljósar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mennta- og barnamálaráðherra kveðst reikna með því að einhvern tíma í þessari viku verði send út boð um „stóran vinnufund“, þar sem kynnt verði aðgerðaáætlun í menntamálum.

Þetta fullyrðir Ásmundur Einar Daðason ráðherra í samtali við mbl.is að loknum fundi ríkisstjórnarinnar.

Aðspurður vill hann ekki gefa það upp að sinni hvenær fundurinn sjálfur verði svo haldinn.

Sjá má samtal hans við blaðamann hér neðar.

Níu mánuðir frá svörtum niðurstöðum PISA

Eins og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag hefur Ásmundur Einar ekki enn kynnt aðgerðaáætl­un til að bregðast við niður­stöðum PISA-könn­un­ar­inn­ar, níu mánuðum eft­ir að þær voru birt­ar.

Ísland lækkaði mest allra OECD-ríkja í PISA-könn­un­inni. Sýndu niður­stöðurn­ar meðal ann­ars að 40% fimmtán ára nem­enda á Íslandi búa ekki yfir grunn­hæfni í lesskiln­ingi.

Þá er Ísland í sjötta neðsta sæti allra OECD-ríkj­anna og næst­neðst Evr­ópu­ríkja.

Næsta PISA-könn­un verður lögð fyr­ir í haust. Þeir sér­fræðing­ar sem Morg­un­blaðið og mbl.is hafa rætt við bú­ast við enn verri niður­stöðum en síðast.

Ísland lækkaði mest allra OECD-ríkja í PISA-könn­un­inni og er næstneðst …
Ísland lækkaði mest allra OECD-ríkja í PISA-könn­un­inni og er næstneðst allra ríkja Evrópu. mbl.is/Hari

Ætlaði að kynna áætlunina þremur dögum síðar

Í tilkynningu frá ráðherranum þann 18. júní var fullyrt að í vinnslu væri aðgerðaáætl­un til að bregðast við niður­stöðum PISA í sam­starfi við breiðan hóp hags­munaaðila.

Tekið var fram að áætl­un­in yrði kynnt til sam­ráðs aðeins þrem­ur dög­um síðar, föstu­dag­inn 21. júní.

Föstu­dag­ur­inn 21. júní leið án þess að nokkuð heyrðist frá ráðuneyt­inu. Í skrif­legu svari við fyr­ir­spurn mbl.is í júlí kvaðst ráðherra loks hafa frestað kynn­ingu aðgerðaáætl­un­ar­inn­ar fram á haust.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ráðherra gefur út tímamörk sem hann hundsar svo án þess að gefa skýringu þar um að fyrra bragði.

Þannig hefur Ásmundur Einar hundsað hvort tveggja lög um grunnskóla og lög um framhaldsskóla, með því að trassa lögbundin skil á skýrslum um málaflokkana.

„Reiknum með því að það fari út í þessari viku“

Spurður í dag hvort komin sé skýrari mynd á hvenær aðgerðaáætlun verði lögð fram segir Ásmundur: 

„Við erum að vinna eftir fyrstu aðgerðaáætlun menntastefnu og við ákváðum það að næstu aðgerðir gagnvart PISA, meðal annars, og stórar aðgerðir sem við erum í núna, frumvörp á leiðinni inn í þingið sem munu skipta miklu máli eins og samræmt námsmat, námsgögn, skólaþjónusta og fleira. Það er á síðustu metrunum – næsta aðgerðaáætlun menntastefnu – og við erum að undirbúa að boða til stórs vinnufundar til þess að kynna það. Þannig við reiknum með því að það fari út í þessari viku, boð á það, og þá hvetjum við alla til þess að mæta. Allir sem vilja hafa áhrif á íslenskt menntakerfi og næstu aðgerðir í umbreytingum til 2030 eru hjartanlega velkomnir þar.“

Þannig að það kemur boð á þennan fund í þessari viku?

„Já, við erum að reikna með því.“

En hvernig er með fundinn, hvenær er hann á áætlun?

„Þá verður það allt saman auglýst nákvæmlega.“

„Aðgerðaáætlunin er fjölbreytt áætlun“

Er þessi fundur þá ætlaður til samráðs við fleiri aðila um næstu skref?

„Já, við erum í miklu samráð við alla hagaðila menntakerfisins og öll þau frumvörp sem við höfum verið að vinna og stefnan í þessum málum byggja á stórum vinnufundum þar sem við höfum kallað alla til og það verður ekkert öðruvísi í þessu en öðru vegna þess að ég trúi á samvinnu og hún færir okkur hraðar áfram og af meiri krafti.“

Þannig þessi aðgerðaáætlun kemur í formi frumvarpa á haustþinginu?

„Aðgerðaáætlunin er fjölbreytt áætlun og verður kynnt þegar hún kemur.“

„Grundvallarbreytingar á menntakerfinu“

Er einhver nákvæmur tímarammi um það?

„Það er reiknað með því að þessi aðgerðaáætlun menntastefnu taki við af núgildandi stefnu, sem er mjög – núgildandi aðgerðaáætlun, sem er mjög róttæk og felur í sér meðal annars frumvarpið sem við erum að skila inn til þingsins núna. Allt eru þetta grundvallarbreytingar á menntakerfinu þannig við reiknum með því að halda áfram í þeim dúr í næstu aðgerðaáætlun og það er það sem allir hafa verið að vinna að.“

En hvenær gerir þú ráð fyrir því að aðgerðaáætlunin verði kynnt?

„Þegar þessi fundur verður haldinn og hún verður kynnt á þeim fundi og til samráðs og samvinnu þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert