„Ég held að nú séu liðin tvö ár síðan stjórn Isavia samþykkti að þegar skiltin yrðu endurnýjuð yrði íslenskan á undan. Þetta var eftir þrýsting bæði frá ráðherra og fólki úti í bæ,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði og gott ef ekki ötulasti baráttumaður hérlendur fyrir að íslenskri tungu sé veitt sú staða sem henni beri á Íslandi – þar sem þó æva skyldi.
Eiríkur ræðir við mbl.is um ný leiðbeiningaskilti í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, þar sem íslenskan er í öndvegi og enskan loks línunni neðar, en á skiltunum nýju vakti Bretinn Max Naylor athygli í Facebook-hópnum Málspjallinu þar sem áhugafólk um íslenska tungu ræðir stöðu málsins í heimi erlendra áhrifa. Í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar mbl.is árið 2022 brást Isavia vel við.
Nýlega birtist á síðum Morgunblaðsins viðtal við Max þennan, sem vinnur að íslensk-enskri orðabók fyrir Árnastofnun, og sagði hann Kristjáni Jónssyni blaðamanni frá aðdáunarverðum málvísindaáhuga sínum og reyndist enn fremur hafa þau tök á íslenskri tungu sem fæstir ætla borgurum breska heimsveldisins að óreyndu. Hljómsveitin Sigur Rós kveikti áhuga Max á Íslandi.
„Maður var kannski orðinn langeygður eftir að eitthvað gerðist, en í morgun sá ég þessar myndir á Facebook og þær glöddu mig,“ segir Eiríkur og er spurður út í þá baráttu hans sem oft hefur ratað á síður íslenskra fjölmiðla. Prófessorinn hefur ekki skirrst við að segja þeim til syndanna er hann telur það eiga skilið þegar enskan tekur yfirhöndina. Og einhver er að hlusta, eða hvað?
„Oft skilar það sér að gera athugasemdir og kvarta yfir óþarfri enskunotkun, við þurfum bara að vera duglegri við þetta. Við erum orðin svo ónæm fyrir enskunni að við annaðhvort kippum okkur ekki upp við hana eða tökum ekki eftir henni,“ svarar Eiríkur.
Hann segir fólk undantekningarlítið taka baráttu hans vel. Íslendingar vilji ekki bægja íslenskunni frá að ástæðulausu. „Þetta er mjög oft bara hugsunarleysi, enskan er svo mikið í umhverfi okkar. Þetta er dálítið eins og með lúsmýið, fyrst þegar það fór að koma og stinga okkur bólgnaði fólk upp en nú eru margir orðnir ónæmir og það er svipað með ensku áhrifin, við tökum ekki eftir þessu,“ segir prófessorinn. Hann kallar eftir vitundarvakningu.
„Enskukunnátta er almenn í landinu og þess vegna ekki alltaf mikill hvati fyrir fólk sem kemur til landsins til að læra íslensku. Auglýsendur treysta því að allir skilji hvort sem er ensku, líka Íslendingar. Við þurfum að benda fólki á að þetta má ekki bara hugsa út frá krónum og aurum, við verðum að hugsa þetta út frá menningunni og tungumálinu,“ segir Eiríkur Rögnvaldsson að lokum.
Hjá Isavia hugsa viðmælendur mbl.is það sama. „Það er gaman að geta sagt frá þessu og þetta er mjög jákvætt núna þegar við erum að stækka flugvöllinn gríðarlega. Þá gefst okkur færi á að endurskoða hlutina,“ segir Jón Cleon, deildarstjóri upplifunar- og markaðsmála, hjá Isavia, móðurfyrirtæki Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Jón kannast vel við færslu Max á Málspjallinu. „Við byrjuðum þetta verkefni í fyrra á Degi íslenskrar tungu, þá hófst átak innan flugvallarins um að halda íslenskunni á lofti, hafa hana í forgrunni og enskuna seinna,“ segir hann og vitnar í mál Lilju Daggar Alfreðsdóttur ráðherra.
„Lilja hefur sagt að íslenskan sé erlendum gestum líka áhugaverð, þeir vilji kynnast tungunni. Núna eru nýjustu skiltin fyrir utan flugstöðina á íslensku fyrst og ensku fyrir neðan. Þessar myndir sem Max birtir myndir af komu að mig minnir um miðbik sumars en nú eru fleiri og fleiri merkingar með íslensku sem aðalmál en þetta mun taka tíma í svona risastórri byggingu,“ segir Jón Cleon, upplifunar- og markaðsmaður hjá Isavia, að lokum um skiltabyltingu í flugstöðinni sem margir hafa barist fyrir.