Staðan er óásættanleg

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staða menntamála hér á landi er óásættanleg og ýmislegt þarf að gera til að bregðast við henni.

Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem ræddi við blaðamann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Þarf að gera betur

„Þetta er algjörlega óásættanlegt. Í menntamálunum, eins og fram hefur komið síðustu misseri, þarf að gera betur,“ segir Áslaug Arna.

„Ég gleðst þó yfir því að loksins virðist vera að koma áhugi í samfélaginu og hjá fjölmiðlum að ræða menntamálin og setja þau á dagskrá. Þar hefur Morgunblaðið og mbl.is verið framarlega,“ bætir hún við og nefnir að nauðsynlegt sé að setja þessi mál á dagskrá og ræða um þau.

Þau hafi ekki fengið þá umfjöllun sem þau eigi skilið í samfélaginu síðustu árin.

Gera þarf betur í menntamálum, að mati Áslaugar Örnu.
Gera þarf betur í menntamálum, að mati Áslaugar Örnu. mbl.is/Hari

Bregðast þurfi við stöðu mála

Áslaug Arna bætir við að frumvörp séu væntanleg frá menntamálaráðherra.

Algjörlega sé ljóst að bregðast þurfi við stöðu mála.

Einnig nefnir hún að á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins hafi verið kynning á menntatækni, sem snýst um að efla læsi barna í Kópavogi, og hvernig hún hefur nýst við að stórauka getu og færni í lestri.

„Það var ótrúlega gaman að sjá það. Það sýnir ekki síst mikilvægi þess að við nýtum tækni og mælingar á árangri og mætum getu hvers og eins, kveikjum áhuga og að við forgangsröðum fjármunum í námsgögn eins og þessi þar sem verið er að nýta tækni og mæta leikgleði nemenda,“ segir ráðherrann og bendir á að halda þurfi áfram að ræða hvernig hægt sé að gera betur.

„Eigum frábæra kennara“

„Skólarnir okkar eru vel mannaðir. Við eigum frábæra kennara sem hafa mikinn metnað og vilja gera betur. Þeir kalla líka eftir ýmsum breytingum eins og fjölbreyttari og öflugri námsgöngum og meiri samræmingu þar á,“ segir Áslaug Arna.

„Það er verið að reyna að mæta því með frumvarpi og fleira þannig að við þurfum að nýta þennan auð okkar betur og setja menntamálin í meiri forgang í samfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert