„Við erum öll slegin“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra og fleiri ráðherrar ríkisstjórnarinnar funduðu með ríkislögreglustjóra, lögreglumönnum og aðilum úr heilbrigðiskerfinu eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag þar sem til umræðu var aukinn vopnaburður og ofbeldi meðal ungmenna.

„Ég vil fyrst byrja á því að votta aðstandendum Bryndísar Klöru Birgisdóttur samúð mína og mikla hluttekningu. Ég veit að öll íslenska þjóðin finnur mjög til með hennar fjölskyldu og aðstandendum í þessum hörmulegu aðstæðum,“ sagði Guðrún í samtali við mbl.is eftir fundinn.

Bryndís Klara var stungin með hnífi á Menningarnótt og lést af sárum sínum á föstudaginn. Hún var 17 ára gömul. 16 ára piltur er grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni við Skúlagötu og er hann í gæsluvarðhaldi og einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði.

Guðrún segir að ríkisstjórnin hafi fjallað um aukið ofbeldi barna og ungmenna á öllum ríkisstjórnarfundum síðan hnífstunguárásin átti sér stað á Menningarnótt.

Verður að bregðast ákveðum bráðavanda mjög hratt

„Við erum öll slegin. Við erum búin að eiga fundi með lögreglunni, barnahúsi og nánast öllum þeim sem koma að starfi með börnum og ungmennum. Við vorum í ráðherranefnd að ljúka fundi um samræmingu mála og við erum einhuga í því að það verði að bregðast við ákveðnum bráðavanda mjög hratt og svo þurfum við sömuleiðis að horfa til lengri framtíðar,“ segir dómsmálaráðherra.

Hún segir að í júní hafi hún og barnamálaráðherra kynnt aðgerðir til að sporna við auknu ofbeldi barna og ungmenna og nú sé búið að skipa aðgerðarhóp sem mun hittast á morgun.

„Hann hefur það hlutverk núna að forgangsraða þeim aðgerðum sem við lögðum til þá, sem voru fjórtán, og koma með tillögur á næstu dögum til ríkisstjórnarinnar hvað þau telji að verði að fara í núna fyrst,“ segir Guðrún.

Með þessu segir hún að verið sé að senda skýr skilaboð út í samfélagið að við þetta verði ekki unað.

Höfum gríðarlegar áhyggjur

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-,iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, telur þörf á þjóðarátaki hvað þessi mál varðar.

„Við höfum gríðarlega áhyggur af þessum málum. Þetta er óhugnanlegt og mjög alvarlegt og þetta er í algjörum forgangi í umræðu hjá ríkistjórninni,“ sagði Áslaug Arna við blaðamann eftir fund ríkistjórnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka