Andlát: Ágúst Óskarsson

Ágúst Óskarsson, íþróttakennari og kaupmaður í Mosfellsbæ, lést föstudaginn 30. ágúst, 75 ára að aldri.

Ágúst fæddist á Sjúkrahúsinu á Akureyri og gekk í barnaskólann Litlu-Laugar, héraðsskólann á Laugum í Reykjadal, Gymnastikhøjskolen í Ollerup í Danmörku 1966-67, Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni 1967-68 og Samvinnuskólann á Bifröst 1970-72.

Ágúst hneigðist snemma að íþróttum og byrjaði að kenna sund um 11 ára aldur ásamt því að þjálfa í frjálsum og í knattspyrnu. Þá sá hann um héraðsmót í frjálsum íþróttum fyrir HSÞ og UNÞ. Var hann íþróttakennari við Varmárskóla og Gagnfræðaskólann í Mosfellssveit árið 1968 og sneri aftur til starfa við kennslu í Mosfellssveit árið 1972 að námi loknu.

Árið 1976 stofnaði Ágúst fyrirtækið Á. Óskarsson og rak hann fyrirtækið samhliða kennslu. Árið 1983 hætti Ágúst kennslu og tók við stöðu framkvæmdastjóra íþróttamannvirkja í Mosfellssveit. Að því starfi loknu sneri hann sér alfarið að rekstri fyrirtækisins og gerði allt fram að andláti.

Ágúst var þjálfari hjá fimleikadeild KR, skipulagði og sá um fimleikasýningar á Suður- og Norðurlandi með sameinuðum fimleikaflokki karla hjá KR og Ármanni. Hann var í forsvari fyrir knattspyrnu kvenna hjá Aftureldingu í allmörg ár og hlaut viðurkenningu fyrir þau störf. Hann hlaut einnig viðurkenningu á 50 ára afmæli Varmárlaugar í Mosfellsbæ. Hann var endurskoðandi bæjarreikninga Mosfellsbæjar, meðlimur í Félagi íslenskra stórkaupmanna, nú Félagi atvinnurekenda, meðlimur í Íslensk-kínverska viðskiptaráðinu, félagi í Oddfellowreglunni og meðlimur í Félagi frímerkjasafnara.

Eiginkona Ágústar var Helga Sigurðardóttur skrifstofustjóri, f. 1960, d. 28.8. 2022. Börn Ágústar eru Óskar Örn, Silja Rán og Heiðar Reyr. 

Útför Ágústar verður föstudaginn 27. september kl. 11 frá Hallgrímskirkju.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert