Bjarkey útilokar ekki formannsframboð

Bjarkey Olsen segir að grundvallarmál flokksins sé félagslegt réttlæti, umhverfisvernd …
Bjarkey Olsen segir að grundvallarmál flokksins sé félagslegt réttlæti, umhverfisvernd og femínismi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra og þingmaður Vinstri grænna, útilokar ekki formannsframboð á komandi landsfundi Vinstri grænna sem haldinn verður eftir einn mánuð.

„Ég segi nú bara eins og hinir félagarnir mínir, það kemur bara í ljós þegar nær dregur landsfundi hvað ég hyggst gera,“ segir Bjarkey aðspurð í samtali við mbl.is.

Útilokar þú formannsframboð?

„Útiloka aldrei neitt í pólitík,“ svarar hún.

VG þurfi að horfa til framtíðar

Landsfundur Vinstri grænna verður haldinn 4.-6. október og eins og staðan er núna þá hefur enginn tilkynnt um formannsframboð. Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur verið starfandi formaður frá því að Katrín Jakobsdóttir hætti á þingi og bauð sig fram til forseta.

Bjarkey segir að flokkurinn þurfi að líta í ræturnar en einnig að horfa til framtíðar.

„Hverju viljum við breyta og hvað viljum við gera?“ segir hún og útskýrir að stefna flokksins sé góð og að kannski þurfi að skerpa á henni.

Fólk geti ekki hugsað sér að VG hverfi af þingi

Bjarkey segir að það stefni í gríðarlega góða mætingu á landsfundinn miðað við skráningu.

Spurð hvort að góð skráning á fundinn bendi mögulega til þess að grasrót flokksins sé ekki sama um stöðu flokksins í ljósi skoðanakannana síðustu mánaða þar sem VG mælist ítrekað utan þings.

„Það er eitt af því sem við öll höfum áhyggjur af, það eru þessar fylgistölur, svo sannarlega. Þó að þetta séu skoðanakannanir – eins og gjarnan er sagt – að þá er þetta samt áhyggjuefni og búið að vera lengi.

Já, ég held að fólki sé annt um það að röddin heyrist áfram og að hún skipti verulega miklu máli. Ég er búin að vera þvælast um landið og ég heyri ekkert annað en að fólk getur eiginlega ekki hugsað sér að við hverfum af þingi,“ segir Bjarkey.

Flokkurinn skilað af sér góðu verki

Hún segir að grundvallarmál flokksins séu félagslegt réttlæti, umhverfisvernd og femínismi. Hún segir að þetta sé kjarni flokksins og að það skipti máli að koma fram með skarpari línur en hefur verið.

„Þó ég telji að við höfum verið að gera afskaplega góða hluti fram til þessa í sjálfu sér. En þá eru þetta auðvitað stoðirnar okkar sem við komum til með – held ég – að leggja mesta áherslu á.“

Hún segir liggja fyrir að eftir sjö ára stjórnarsamstarf þvert á pólitískar línur að þá sé ekkert óeðlilegt við það að það þurfi að skerpa línurnar enn frekar um hvert flokkurinn vilji fara. Hún segir það þó líka eiga við um hina stjórnarflokkana.

„Ég endurtek það samt að það er ótrúlega margt gott búið að gerast sem ég tel að hefði ekki gerst nema bara af því að Vinstri græn eru í þessari ríkisstjórn. Þannig við þurfum líka dálítið að sýna fólkinu okkar og segja því frá því. Það virðist ekki alltaf skila sér það sem við erum að gera,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert