Dreifa 90 þúsund skömmtum af bóluefni

Mælst er til þess að öll börn fædd árið 2020 …
Mælst er til þess að öll börn fædd árið 2020 og síðar njóti forgangs við bólusetninguna. Ljósmynd/Colourbox

Bólusetningar gegn inflúensu hefjast í byrjun október en 90 þúsund skömmtum af bóluefninu Vaxigrip Tetra verður þá deilt á milli landsmanna. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá landlækni en þar segir að líkt og undanfarin ár verði dreifingu forgangsraðað til hjúkrunarheimila og heilbrigðisstofnana sem bólusetja forgangshópa fyrstu vikurnar.

Þess er vænst að bólusetningar forgangshópa geti hafist um allt land í byrjun október en aðrir sem fá úthlutað bóluefni fá það væntanlega síðar í október.

Þeir hópar sem sóttvarnalæknir mælist til að njóti forgangs við bólusetningar eru allir einstaklingar 60 ára og eldri, öll börn fædd árið 2020 eða síðar sem hafa náð sex mánaða aldri þegar bólusett er, öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, offitu, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum, barnshafandi konur og heilbrigðisstarfsmenn sem annast þessa hópa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert