Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur gert flugfélagi að greiða farþega, sem varð fyrir því að ný ferðataska hans eyðilagðist í ferðum með flugfélaginu, andvirði töskunnar að fullu.
Fram kemur í úrskurði nefndarinnar að farþeginn hafi farið með flugfélaginu frá Keflavík til ónafngreinds lands og til baka aftur í janúar.
Þegar út var komið reyndist ferðataskan hafa rispast og var farþeganum tjáð af starfsmanni flugvallarins að taskan hefði dottið af farangursbifreið. Í fluginu heim til Íslands beyglaðist taskan einnig töluvert.
Taskan var keypt í Bandaríkjunum í september 2023 fyrir andvirði 163.300 króna auk virðisaukaskatts og krafðist farþeginn þess að fá hana bætta að fullu. Hann lagði fram yfirlýsingu frá framleiðanda töskunnar þar sem fram kom að ekki væri hægt að gera við töskuna.
Flugfélagið hafnaði kröfu farþegans, sagði að taskan væri enn nothæf og að myndir gæfu til kynna eðlilegt slit á ferðatösku sem félagið bæri ekki ábyrgð á. Farþeginn sagði á móti að ekki væri um að ræða eðlilegt slit enda hefði hann verið að nota töskuna í fyrsta skipti á ferðalagi og skemmdirnar hefðu haft veruleg áhrif á útlit töskunnar.
Kærunefndin segir í niðurstöðu sinni að hún telji með hliðsjón af gögnum málsins að sýnt hafi verið fram á að innritaður farangur farþegans hafi orðið fyrir skemmdum í vörslu flugfélagins. Þá telji kærunefndin að farþeginn hafi sýnt fram á með fullnægjandi hætti að ekki sé hægt að gera við töskuna. Niðurstaðan er að flugfélaginu beri að greiða farþeganum 164.300 kr. í bætur.