„Frekar óþægilegt að horfa á þetta“

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. mbl.is/Óttar

„Það var frekar óþægilegt að horfa á þetta en þessi maður var á stað sem hann á alls ekki að vera á ef við hugsum um öryggi hans. Auðvitað er það algjör della að ganga inn á nýrunnið hraun.“

Þetta segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við mbl.is en franski ljósmyndarinn og leiðsögumaðurinn Kevin Pages náði myndbandi af ferðamanni í gær þar sem hann var hætt kominn við gosstöðvarinnar á Reykjanesskaga. Frá þessu var greint á mbl.is í gær.

Í myndbandinu sést hvernig ferðamaðurinn hefur farið yfir glænýtt hraun, nánast alla leið upp að gosopinu þar sem hann stóð og tók sjálfsmyndir.

Ferðamaðurinn við gosstöðvarnar í gær.
Ferðamaðurinn við gosstöðvarnar í gær. Ljósmynd/Kevin Pages

Hætturnar leynast víða

„Við höfðum engin afskipti af þessum manni svo ég viti. Hann var þarna á eigin ábyrgð. Það er í sjálfu sér engum bannað að fara um svæðið en ráðleggingarnar eru allt aðrar. Við höfum svo sem upplifað svona atvik allt frá fyrsta gosi 2021. Það eru alltaf einhverjir sem fara ógætilega,“ segir lögreglustjórinn á Suðurnesjum.

Úlfar segir að flestir haldi sér við svokallað bambaplan og nágrenni þess þar sem mesta umferðin hafi verið.

„Það kemur fram á þeim viðvörunarskiltum sem erum við þessa staði að ekki sé óhætt að ganga að gosstöðvunum enda leynast víða hættur,“ segir Úlfar.

Úlfar segir að vinna sé í gangi undir stjórn framkvæmdanefndar að gera Grindavíkurbæ öruggari en síðastliðna nótt var dvalið í 39 húsum í bænum.

Hættur inni í bænum samkvæmt hættumatskorti Veðurstofunnar eru jarðföll ofan í sprungur og sprunguhreyfingar og Grindavík er á svæði samkvæmt hættumatskortinu þar sem hætta er metin töluverð.

Bláa lónið er hins vegar á svæði þar sem hætta er nokkur og þá vegna gasmengunar.

Hættusvæðið.
Hættusvæðið. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka