Grímuklæddur maður á fertugsaldri ógnaði ungum stúlkum með hnífi í Seljahverfi í Breiðholti í gærkvöldi.
Stúlkurnar náðu að hlaupa í burtu frá manninum og komast undan og horfðu svo á eftir manninum fara sína leið.
Þær voru sjö talsins, á aldrinum tíu til fjórtán ára.
Segja þær að hann hafi verið með gleraugu og með grímu um andlitið og telja að hann hafi verið á fertugsaldri.
Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir við mbl.is að lögreglunni hafi um klukkan 21 verið tilkynnt um mann sem hafði ógnað stúlkum með hníf í hendi.
Gunnar segir að atvikið hafi átt sér stað um tveimur tímum áður. Þegar lögreglan kom á svæðið hafi verið rætt við fólk á vettvangi, við stúlkurnar og foreldra þeirra.
„Það hafðist ekki upp á þessum manni en tilkynningin um þetta atvik barst tveimur tímum seinna,“ segir Gunnar við mbl.is.
„Lögreglumennirnir sem komu á vettvang tóku niður lýsingu á manninum og ræddu við stúlkurnar og foreldra þeirra til að fá mynd af því sem gerðist.“
Hann segir að málið sé til rannsóknar.