Gul viðvörun tekur gildi á Breiðafirði klukkan 8 í dag. Suðaustan hvassviðri verður eða stormur á norðanverðu Snæfellsnesi og snarpar vindhviður. Veðrið verður varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Mun hægari vindur verður annars staðar á spásvæðinu.
Það gengur í sunnan 8 til 15 metra á sekúndu í dag, en 15-23 m/s á norðanverðu Snæfellsnesi þangað til síðdegis.
Víða verður súld eða rigning, en hægari austanlands og dálítil rigning þar seinnipartinn. Hiti verður á bilinu 8 til 16 stig, hlýjast norðaustan til.
Sunnan og síðar suðvestan 13-23 m/s verða á morgun, hvassast norðan til á landinu. Víða verður rigning fyrripart dags. Dálítil væta verður síðdegis, en léttir til norðaustan- og austanlands. Hiti verður á bilinu 10 til 20 stig, hlýjast á norðaustanverðu landinu. Dregur úr vindi um kvöldið.