Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir vegna veðurs. Eru þær í gildi í dag og á morgun.
Suðvestan hvassviðri eða stormur er á norðanverðu Snæfellsnesi fram eftir degi. Gul viðvörun tók gildi klukkan átta í morgun við Breiðafjörð og verður að öllu óbreyttu í gildi til klukkan 15 í dag.
Í ábendingum frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar er varað við snörpum vindhviðum á norðanverðu Snæfellsnesi.
Á morgun er spáð suðvestan hvassviðri eða stormi á norðanverðu landinu. Verða gular viðvaranir í gildi á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra og Miðhálendinu.
Vindhviður gætu náð 35 m/s á Vestfjörðum og Norðurlandi en allt að 40 m/s á miðhálendinu.
Fyrsta viðvörunin tekur gildi klukkan átta í fyrramálið og verður í gildi til klukkan 21, samkvæmt vefsíðu Veðurstofunnar.
Fólk er hvatt til að tryggja lausamuni utandyra. Þá eru ökumenn bifreiða sem verða óstöðugar í vindi varaðir við.