Upphæðirnar sem þjófagengi á Suðurlandi hefur svikið af fólki eftir að hafa komist yfir greiðslukort fólks og notað þau í hraðbönkum skipta hundruðum þúsunda króna.
Þetta segir Þorsteinn Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is.
Lögreglan varaði við þjófagenginu í færslu á Facebook í gær og segir að tvö slík mál hafi endað á borði embættisins síðastliðna daga.
„Þessi menn koma auga á eitthvað fólk og fylgjast með því stimpla inn auðkennisnúmer í hraðbanka, ná síðan greiðslukortunum af því og taka út peninga,“ segir Þorsteinn.
Hann segir að þessi tvö tilvik sem hafi komið upp á síðustu dögum hafi átt sér stað á Selfossi og í Hveragerði og hafi verið um umtalsverða upphæð að ræða fyrir einstaklinga.
„Þetta skiptir hundruðum þúsunda,“ segir Þorsteinn og brýnir fyrir fólki að vera á varðbergi gagnvart þessum aðilum.
Hann segir að ekki hafi tekist að hafa uppi á þjófunum.