Hefja gjaldtöku um áramótin

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is

Miðað er við að almenn gjaldtaka á bílastæðum við Háskóla Íslands hefjist um áramótin. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef háskólans.

„Vinna við innleiðingu gjaldtöku fyrir bílastæði á háskólasvæðinu hefur tekið lengri tíma en ætlað var og miðað er við að gjaldtaka hefjist um áramót. Henni verður stillt í hóf. Málið verður rætt á næsta fundi háskólaráðs, þar á meðal hvernig tímalína innleiðingar gæti litið út,“ segir í tilkynningunni.

Gjald verður almennt tekið fyrir notkun bílastæða frá kl. 8-16 á virkum dögum en stæðum við skólann verður skipt í tvö gjaldsvæði sem sjá má hér fyrir neðan.

Teikning/Háskóli Íslands

Hafa samráð við nærliggjandi stofnanir

Á svæði A sem er rauðmerkt á myndinni eru valin stæði næst byggingum þar sem alltaf verður tekið gjald líkt og hefur verið í skeifunni við aðalbyggingu skólans og við Gimli. Þessum stæðum verður fjölgað og verða þau rúmlega 200 af um 1.700 bílastæðum á háskólasvæðinu.

Önnur stæði eru á svæði B sem er blámerk á myndinni en þar verður tekið almennt gjald. Nemendur og starfsfólk HÍ geta þó skráð bifreiðar sínar til að fá heimild til að leggja á þeim stæðum án annarrar þóknunar en hóflegs skráningargjalds.

Í tilkynningunni segir að við innleiðingu gjaldskyldunnar verði haft náið samráð við Landspítalann og aðrar nágrannstofnanir, meðal annars til að gæta þess að nemendur og starfsfólk í heilbrigðisgreinum, sem eiga erindi bæði á lóð Háskóla Íslands og Landspítalans, greiði ekki tvisvar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert