Hlutfall innflytjenda sem talar tungumál landsins sem þeir búa í er lægst á Íslandi af öllum OECD-löndum en það skýrist eflaust að einhverju leyti af þeirri staðreynd að íslensk yfirvöld eyða hlutfallslega mun minna í tungumálakennslu aðfluttra íbúa en nágrannaþjóðir.
Þetta kemur fram í nýrri úttekt OECD (Efnahags- og framfarastofnunarinnar) um stöðu innflytjenda hér á landi en hún var unnin fyrir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og kynnt á blaðamannafundi í morgun.
Í skýrslunni er sjónum sérstaklega beint að tungumálakunnáttu og kennslu innflytjenda en sá hluti skýrslunnar hefst á orðunum: „Leikni í tungumáli landsins sem maður flytur til er hugsanlega mikilvægasta hæfni sem innflytjandi getur búið yfir til að geta að fullu aðlagast nýju samfélagi.“
Þekking á tungumálinu gerir innflytjendum kleift að tjá sig á skýran máta við innfædda íbúa og opnar á möguleikann að mynda félagsnet utan sinnar kreðsu.
Þá eru innflytjendur sem tala tungumál landsins líklegri til að fá hærri laun og störf sem samræmast menntun þeirra.
Það liggur því í augum uppi að kunnátta í tungumáli landsins sem búið er í skiptir bæði innflytjendur og samfélagið sem býður þá velkomna gífurlega miklu máli.
Því er eftirtektarvert að minna en 20% innflytjenda á Íslandi telja sig hafa góða undirstöðu í íslensku.
Hlutfallið er hvergi lægra innan OECD-ríkjanna en meðalhlutfallið þar er um 60%.
Á myndritinu hér að ofan má sjá hlutfall innflytjenda sem tala tungumál landsins sem þeir búa í í OECD-löndum.
Þar sést að það er í raun bara í Eistlandi og Lettlandi þar sem hlutfallið er eitthvað í líkingu við á Íslandi en í öllum öðrum löndum er hlutfallið a.m.k. um tvöfalt ef ekki þrefalt hærra.
Þá vekur athygli að meira að segja í löndum eins og Finnlandi, þar sem tungumálið er mun flóknara fyrir flesta innflytjendur en íslenska, er hlutfall þeirra sem hafa góða kunnáttu í því mun hærra.
Þessar niðurstöður eru sérstaklega eftirtektarverðar í ljósi þess að hlutfall innflytjenda af íbúum á Íslandi fer sífellt hækkandi.
Það þýðir að hlutfall íbúa hér á landi sem tala íslensku fer lækkandi.
Á töflunni hér fyrir ofan má sjá hlutfallslega fjölgun innflytjenda frá árinu 1994.
En hvað veldur því að hlutfall innflytjenda sem tala tungumál landsins er mun lægra hérna en í hinum norrænu ríkjunum?
Í skýrslu OECD er bent á að hér hafi ekki verið mótuð stefna um tungumálakennslu innflytjenda en sömuleiðis að hlutfallsleg útgjöld við tungumálakennslu séu mun lægri hér en til dæmis í Skandinavíu.
Á töflunni hér að ofan má sjá að íslensk yfirvöld eyða margfalt minna í íslenskukennslu innflytjenda heldur en önnur Norðurlönd eyða í sína móðurmálskennslu.
Þá segir í skýrslunni að það fjármagn sem er eyrnamerkt íslenskukennslu fyrir innflytjendur á næstu árum sé langt frá því að duga til að koma Íslandi á svipaðan stað og hin OECD-ríkin.
Það er jafnvel þó að gert sé ráð fyrir að allt fé sem á að setja í aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu íslenskunnar verði sett í íslenskukennslu innflytjenda en það getur varla talist líklegt.
Leiða má líkur að því að lágt hlutfall innflytjenda hérlendis sem talar íslensku hafi margvísleg áhrif á samfélagið.
Kannanir hafa meðal annars sýnt fram á að góð íslenskukunnátta auki líkurnar á því að innflytjendur sinni starfi sem krefst sérþekkingar um 10 prósentustig.
Þá eru innflytjendur sem tala góða íslensku mun sjálfstæðari bæði þegar kemur að því að mynd félagsnet og í atvinnuleit.
Það sem meira er, er að 46% innflytjenda á Íslandi sem hafa átt erfitt með að finna vinnu nefna skort á íslensku helstu ástæðu þess.