Hópur íslenskra listamanna safnaðist saman fyrir utan utanríkisráðuneytið í morgun til að syngja friðarlagið Þú veist í hjarta þér eftir Þorstein Valdimarsson. Hópurinn kallar sig Samstöðukór fyrir frjálsri Palestínu og ætlar að syngja hvern miðvikudagsmorgun fyrir utan ólík ráðuneyti Alþingis.
Fjöldi þjóðþekkta íslendinga tekur þátt í kórnum en í morgun voru meðal annars viðstödd Páll Óskar Hjálmtýsson, Matthías Tryggvi Haraldsson, Ragnheiður Gröndal og Vigdís Hafliðadóttir.
Í tilkynningu frá hópnum segir að markmiðið sé að „krefja íslenska ríkið um aðgerðir vegna þjóðarmorðs Ísraelsríkis á Palestínumönnum sem nú hefur staðið yfir í 11 mánuði“.
„Áður en kórinn mætti fyrir utan ráðuneytið sendu þau yfirlýsingu þar sem aðstæðum á Gasa er lýst og þeim fjölmörgu mannréttindabrotum sem Ísraelsher hefur framið. Í textanum tala þau einnig um þau alþjóðalög sem Ísraelsríki hefur brotið,“ segir í tilkynningu kórsins.
Þá fylgdu þrjár kröfur með bréfinu sem sérstaklega beindust að utanríkisráðuneytinu og ráðherra þess, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur.
Þær eru að Ísland styðji kæru Suður-Afríku á hendur Ísraelsríki fyrir brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn þjóðarmorði, að slíta stjórnmálasamstarfi Íslands við Ísrael og að Ísland hefji samnorrænt ákall um viðskiptaþvinganir.
Vala Sigþrúðar Jónsdóttir, einn talsmaður kórsins, segir að kórinn hafi komið að læstum dyrum í ráðuneytinu í morgun en hann láti það ekki stoppa sig.
„Við héldum okkar striki, ég las upp yfirlýsinguna okkar og svo sungum við lagið í gegn tvisvar,“ segir Vala í samtali við mbl.is.
Kórinn samanstendur að mestu af tónlistarmönnum en í honum eru líka listamenn sem vinna innan annarra greina.
Spurð af hverju hópurinn hafi ákveðið að fara þessa leið, að nota tónlistina í baráttu sinni, segir Vala:
„Okkur fannst þetta lag eiga svo fallega við. Þetta er gamalt andhernaðarlag eftir Þorstein Valdimarsson en okkur fannst boðskapurinn eiga vel við þjóðarmorðið sem er að eiga sér stað í Palestínu.
Við vildum sýna ráðamönnum að listamönnum á Íslandi stendur ekki á sama en nú hefur fólk á Íslandi verið að mótmæla þjóðarmorðinu síðan það hófst í október og við viljum fá sterkari viðbrögð frá stjórnvöldum. Þess vegna sendum við þessar þrjár kröfur á utanríkisráðuneytið með söngnum.“
Kórinn á sér norska fyrirmynd en sá kór hefur sungið fyrir utan ráðuneyti síðan frá því í vor og hafa fengið að ræða við þó nokkra ráðherra Noregs um ástandið í Palestínu og hvatt þá til aðgerða.