Liggur enn undir feldi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson formaður vinstri grænna.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson formaður vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur enn ekki tekið ákvörðun um hvorn hann bjóði sig fram til áframhaldandi formannssetu á landsfundi vinstri grænna í október.

Þegar blaðamaður spyr Guðmund Inga hvort hann hafi gert upp hug sinn segir hann:

„Já þetta er svona vinsælasta spurningin. Ég ligg enn undir feldi og er að hugsa málið. Ég hef ekki tekið ákvörðun enn sem komið er.“

Vill skerpa á ýmsum málum

Hann vill ekki gefa neitt upp um hvenær ákvörðunarinnar sé að vænta en landsfundur flokksins fer fram í byrjun október.

Guðmundur Ingi segir að þá muni flokkurinn skerpa á áherslum sínum inn í komandi kosningavetur en spurður hvað hann sjálfur vilji leggja áherslu á til að reyna rífa flokkinn upp úr mikilli fylgislægð, sem hann hefur verið í í skoðanakönnunum um þó nokkurt skeið, telur hann upp eitt og annað.

„Ég tel að það séu nokkur mál sem við þurfum að leggja áherslu á og það er að standa vörð um heilbrigðiskerfið og þessum félagslegu kerfum og hafna frekari einkavæðingu á þeim,” segir Guðmundur Ingi og bætir við að sömuleiðis þurfi að hafna einkavæðingu á innviðum sem eigi að þjónusta fólkið í landinu á borð við vegakerfið og fjarskiptainnviði.

„Annað sem ég vil nefna í okkar efnahagsstefnu er að breiðu bökin gefi meira til samfélagsins heldur en nú er. Þar erum við bæði að horfa til þeirra einstaklinga sem hafa sem allra, allra mest á milli handana og fyrirtækja, að það séu eðlilegir skattar greiddir af notkun sameiginlegra auðlinda,“ segir Guðmundur Ingi.

Vill styðja við efnaminni fjölskyldur

Þá nefnir hann húsnæðis og fjölskyldumálin og mikilvægi þess að jafnvægi verði tryggt á húsnæðismarkaði.

„Þar þurfum við að horfa til þess að geta náð jafnvægi á húnæðismarkaði. Að það sé nægt framboð af húsnæði sem að fólk ræður við að fjárfesta í, búa til betri leigumarkað og auka við félagsleg úrræði á húsnæðismarkaði.“

Hvað fjölskyldumálin varðar talar Guðmundur Ingi um að horfa þurfi til þess að halda áfram að styðja við barnafjölskyldur, sérstaklega þær sem eru efnaminni.

Jafnrétti og náttúruvernd

„Þegar kemur að náttúruverndinni tel ég að við þurfum að vera með allan vara á okkur vegna aukinnar aðsóknar í orkuauðlindir. Við verðum að geta ráðist í nauðsynleg orkuskipti án þess að fórna verðmætri náttúru sem við berum líka ábyrgð á að vernda,“ segir Guðmundur og bætir við að lofslagsmálin séu stærsta velferðarmál 21. aldar.

Að lokum nefnir hann jafnréttismál: „Ég vil líka sjá okkur skerpa á áherslum okkar þegar kemur að jafnréttis og kvenfrelsismálum og standa vörð um mannréttindi fatlaðs fólks, hinsegin fólks og annarra hópa.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert