Segja vafasamt að fullyrða um samræmt námsmat

Ekkert heildstætt samræmt mat hefur verið gert á hæfni grunnskólabarna …
Ekkert heildstætt samræmt mat hefur verið gert á hæfni grunnskólabarna frá því skólayfirvöld gáfust upp á samræmdu könnunarprófunum. mbl.is/Hari

Svokallaður matsferill, eins og honum er lýst í dag, mun ekki nýtast til að afla upplýsinga um stöðu einstakra skóla, sveitarfélaga og skólakerfisins í heild þannig að skólastjórnendur og menntayfirvöld geti fylgst með og greint afrakstur skólastarfs.

Þetta er mat Freyju Hreinsdóttur, prófessors í stærðfræði og stærðfræðimenntun, Hauks Arasonar, dósents í eðlisfræði og náttúrufræðimenntun, Helgu Birgisdóttur, lektors í íslensku, Jóns Ynga Jóhannssonar, dósents í íslensku, og Meyvants Þórólfssonar, prófessors emeritus í námskrárfræðum, námsmati og náms- og kennslufræðum.

Þau eru sameiginlega skrifuð fyrir umsögn við drög að frumvarpi sem á að heimila ráðherra að leggja endanlega niður samræmd könnunarpróf. 

Á nýja námsmatið matsferill að leysa þau af hólmi.

Matsferillinn verði gagnlegur 

Þessir sérfræðingar við menntavísindasvið Háskóla Íslands telja mikilvægt að skyldubundin samræmd könnunarpróf verði lögð fyrir í 4., 6. og 9. bekk, samhliða matsferlinum, og að börnum standi auk þess til boða að þreyta samræmt lokapróf við lok grunnskólanáms.

Telja þau upplýsingar um námsárangur ekki einungis eiga að vera fyrir kennara, skólastjórnendur og menntamálayfirvöld heldur eigi nemendur og foreldrar ekki síður rétt á að fá áreiðanlegar og réttmætar upplýsingar um árangur náms til að geta veitt skólafólki og sveitarstjórnum aðhald hvað varðar menntun barna og unglinga.

Þó svo að matsferill geti orðið að gagnlegu tæki í skólastarfi þá þykir þeim vafasamt að fullyrða að í matsferli felist samræmt námsmat, eins og honum hefur verið lýst.

Í umsögninni er athygli vakin á að árangri íslenskra nema …
Í umsögninni er athygli vakin á að árangri íslenskra nema hafi hrakað verulega frá því að samræmdu lokaprófin voru afnumin með lagabreytingu árið 2008. mbl.is/Hari

Samræmt námsmat í íslensku og stærðfræði en ekki ensku

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, áður Menntamálastofnun, hefur unnið að þróun matsferilsins frá árinu 2020 og er hann enn í vinnslu.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum verður námsmat fyrir íslensku og stærðfræði tilbúið til notkunar á næsta skólaári, þ.e. skólaárið 2025 til 2026.

Í skýringum við frumvarpið segir að hlutverk matsferils verði annars vegar að tryggja heildstæða og skýra mynd af stöðu hvers barns í námi og hins vegar að afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild með skyldubundnu samræmdu námsmati.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skyldubundnu samræmdu námsmati, sem verður hluti Matsferils og því samtengt virku mati skóla á stöðu og framvindu barns, með það að leiðarljósi að það mat nái frekar tilætluðum samfélagslegum markmiðum og hægt sé að nýta gögn úr því með markvissari hætti,“ segir í skýringum ráðuneytisins.

Þá er lagt til að „skyldubundið samræmt námsmat“ verði í 4., 6. og 9. bekk, en aðeins í íslensku og stærðfræði. 

Í staðinn verði ekki lögð fyrir samræmd könnunarpróf fyrir nemendur í 4. og 7. bekk og svo einu sinni á unglingastigi í íslensku, ensku og stærðfræði.

Vilja samræmd könnunarpróf samhliða matsferlinum

Í umsögn fræðafólksins segir að mikilvægt sé að til viðbótar við matsferilinn verði haldin skyldubundin yfirgripsmikil samræmd könnunarpróf fyrir nemendur í 4., 6. og 9. bekk í íslensku, stærðfræði, náttúruvísindum og ensku.

„Slík próf ættu að vera á forræði ráðuneytis menntamála. Það er ekki skynsamlegt að blanda þessum prófum saman við Matsferillinn sem er annars eðlis og ekki heppilegt að nota óljóst orðalag á borð við „skyldubundið samræmt námsmat“ eða „matstæki“,“ segir í umsögninni.

Leggur hópurinn jafnframt til þann möguleika að könnunarprófin verði aðeins lögð fyrir úrtak nemenda sem yrði valið af menntayfirvöldum. Segja þau slíkt fyrirkomulag við lýði meðal ýmissa annarra þjóða.

Yrðu markmið könnunarprófanna að afla upplýsinga um stöðu einstakra skóla, sveitarfélaga og skólakerfisins í heild þannig að skólastjórnendur og menntayfirvöld geti fylgst með og greint afraksturinn.

Fullyrða þau að matsferillinn, eins og honum er lýst í dag, muni ekki nýtast í þessu hlutverki.

Leggja til valkvæð samræmd lokapróf

Hópurinn leggur einnig til að nemendum í 10. bekk verði boðið að þreyta samræmd lokapróf við lok grunnskóla í stærðfræði og náttúruvísindum, og jafnvel íslensku, ensku og fleiri greinum.

Yrði það gert til að efla hæfni íslenskra ungmenna og til að gefa skólastjórnendum og kennurum skýra mynd af mikilvægum áhersluatriðum í menntun barna og unglinga.

„Það er sjálfsögð jafnræðiskrafa að vandað, miðlægt, samræmt lokamat (samræmd lokapróf) í kjarnanámsgreinum eins og náttúruvísindum, stærðfræði og íslensku sé alltaf í boði í okkar skólakerfi þegar kemur að lokum skyldunáms,“ segir í umsögninni.

„Víðtækt, gilt og heiðarlegt mat á stöðu hvers nemanda við lok skyldunáms án aðkomu heimaskóla hans og kennara skiptir sköpum í skólakerfi sem býður upp á margbreytilegar námsleiðir öllum til hæfis, þ.e. iðnnám, starfsnám, listnám, tækninám og bóknám auk sérstaks undirbúningsnáms handa þeim sem á því þurfa að halda.“

Að mati hópsins þurfa prófatriðin að vera samræmd og fyrirlögn …
Að mati hópsins þurfa prófatriðin að vera samræmd og fyrirlögn og aðstæður nemenda að vera eins til að námsmat sé samræmt. mbl.is/Hari

Óljós ákvæði hafi lítið að segja

Hópurinn nefnir í umsögninni að reynslan sýni að einungis það samræmda námsmat sem skýrt sé kveðið á um í lögum hafi orðið að veruleika.

Til að mynda hafi aldrei komist til framkvæmda ýmis áform og loforð um samræmt námsmat í lögum um grunnskóla frá 1995 og svo í lögum um grunnskóla frá 2008.

Segir í umsögninni að óljós ákvæði og áform hafi lítið að segja.

Þá sé ekki heldur komin nein reynsla af matsferli sem sé lýst sem heildstæðu safni matstækja í mörgum námsgreinum.

„Hvert matstæki eða próf sé stutt og hnitmiðað og snúist um takmarkað viðfangsefni, að nemendur geti tekið þau oftar en einu sinni og að kennarar hafi aðgang að prófatriðunum,“ segir í umsögninni.

Nýtast ekki til að gefa heildstæða mynd

„Matstæki af þessum toga eru mjög gagnleg í skólastarfi til að meta nám nemenda á afmörkuðum sviðum og geta nýst kennurum mjög vel sem leiðsagnarmat fyrir nemendur. Á hinn bóginn nýtast slík matstæki ekki til að gefa heildstæða samræmda mynd af færni nemenda á ákveðnum viðamiklum sviðum. Auk þess er ljóst að ef kennarar og eftir atvikum nemendur hafa nákvæmar upplýsingar um prófatriðin dregur það úr gildi þeirra sem slíks mats.“

Að mati hópsins þurfa prófatriðin að vera samræmd og fyrirlögn og aðstæður nemenda að vera eins til að námsmat sé samræmt.

„Þannig er lítið samræmi í því að sumir nemendur þekki prófatriðin af fyrri fyrirlögnum en aðrir ekki. Eins er ekki heppilegt að kennarar þekki prófatriðin sjálf þegar nýta á þau til að meta skóla eða sveitarfélög. Í umræðum um samræmt námsmat er mjög mikilvægt að skýr grein sé gerð fyrir því í hverju samræmingin felst,“ segir í umsögninni.

„Hún tengist ekki einungis prófatriðunum sjálfum heldur einnig fyrirlögninni, yfirferð verkefnanna, hverjir taka prófin, hversu oft þeir taka prófin, hvenær prófin eru haldin, aldri próftaka o.s.frv. Það er því vafasamt að hægt sé að fullyrða að í Matsferli felist samræmt námsmat.“

Afnám prófanna 2008 leitt til aukins óréttlætis

Í umsögninni er athygli vakin á að árangri íslenskra nema hafi hrakað verulega frá því að samræmdu lokaprófin voru afnumin með lagabreytingu árið 2008.

Er það í takt við niðurstöður alþjóðlegra rannsókna sem benda til þess að samræmt námsmat leiði til betri námsárangurs.

„Í skýrslu Evrópuráðsins frá 2022 Increasing achievement and motivation in mathematics and science learning in schools kemur fram að meðal þjóða þar sem haldin eru samræmd próf í stærðfræði þá nær hærra hlutfall nemenda lágmarksfærni í greininni. Hér á Íslandi má sjá að lakari árangur á PISA hefur fylgt í kjölfar afnáms samræmdra prófa. Hér er ekki verið að halda fram að afnám slíkra prófa sé eina ástæða lakari árangurs,“ segir í umsögninni.

„Til viðbótar þá eru sterkar vísbendingar um að samræming og stöðlun í menntakerfinu leiði til aukins jöfnuðar og réttlætis og að afnám samræmdra lokaprófa grunnskóla árið 2008 hafi leitt til aukins óréttlætis í aðgangi að menntun. Enda leiðir skortur á stöðlun í menntakerfinu til þeirrar hættu að nemendur og nemendahópar geti farið á mis við mikilvæga þætti í menntun sinni. Samræming í menntakerfinu er líkleg til að leiða af sér aukið jafnrétti til menntunar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert