Svanhildur boðin velkomin til starfa

Skipunin þótti nokkuð umdeild á sínum tíma.
Skipunin þótti nokkuð umdeild á sínum tíma. Samsett mynd/Eggert/Unnur/Andrew Caballero-Reynolds

Svanhildur Hólm Valsdóttir hefur verið boðin formlega velkomin til starfa sem sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, en hún hóf störf fyrir rúmum mánuði síðan. Hún er þó ekki enn komin með öll réttindi og skyldur embættisins.

Hún hefur verið í Washington D.C. í rúman mánuð að sinna hefðbundnum störfum sendiherra en hún má þó ekki mæta á fundi með kjörnum fulltrúum í Bandaríkjunum fyrr en 18. september.

Þetta segir Ægir Þór Ey­steins­son, fjöl­miðlafull­trúi ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins, í samtali við mbl.is.

Mun afhenda Joe Biden trúnaðarbréf

Þann 18. september er áætlað að Svanhildur afhendi Joe Biden, forseta Bandaríkjanna, trúnaðarbréf eins og sendiherrum er skylt að gera.

Þá öðlast hún öll réttindi og skyldur sendiherra og má meðal annars funda með kjörnum fulltrúum fyrir hönd Íslands, að sögn Ægis. 

Á samfélagsmiðlinum X birti íslenska sendiráðið í Bandaríkjunum færslu þar sem hún er boðin velkomin. 

Umdeild skipun

Það var í desember 2023 í utanríkisráðherratíð Bjarna Benediktssonar sem Svanhildur var skipuð og þótti ákvörðunin umdeild meðal sumra í ljósi þess að Svanhildur er fyrrverandi aðstoðarmaður Bjarna til margra ára.

Odd­ný Harðardótt­ir, þing­maður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sagði að skip­an­in væri „birt­ing­ar­mynd spill­ing­ar sem er viður­kennd inn­an rík­is­stjórn­ar Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur“.

Bjarni var spurður í viðtali við mbl.is hvort að honum þætti ekkert skrýtið við það að skipa fyrrverandi aðstoðarmann sinn.

„Það er ein­mitt vegna þess að við störfuðum um langt ára­bil sam­an að ég þekki til hæfni og færni Svan­hild­ar,“ svar­aði Bjarni.

Uppfært:

Upphaflega var sagt að Guðmundur Árnason, fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, hefði verið skipaður sendiherra í Róm. Það er ekki rétt. Hann er fastafulltrúi hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert