Synjað um áfrýjun meiðyrðamáls

Arnar Þór, til vinstri, ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni …
Arnar Þór, til vinstri, ásamt lögmanni sínum Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni við rekstur meiðyrðamálsins í héraði. mbl.is/Árni Sæberg

Hæstiréttur hafnaði í dag beiðni þeirra Arnars Þórs Ingólfssonar og Þórðar Snæs Júlíussonar blaðamanna um áfrýjun dóms Landsréttar frá í maí þegar sýknudómur var kveðinn þar upp yfir Páli Vilhjálmssyni fyrir vefskrif hans í meiðyrðamáli sem þeir Arnar og Þórður höfðuðu gegn honum fyrir ummæli í þeirra garð tengd Samherjamálinu og kröfðust ómerkingar ummælanna.

Bar Páll stefnendum á brýn að hafa framið hegningarlagabrot með því að stela síma Páls Steingrímssonar skipstjóra í kjölfar þess að hafa byrlað honum á ólyfjan á meðan hann lá á spítala um það leyti sem fjölmiðlaumfjöllun um svokallaða „skæruliðadeild“ útgerðarfélagsins stóð sem hæst.

Byggja á verulegu almennu gildi

Voru ummæli Páls Vilhjálmssonar í skrifum hans dæmd ómerk í héraði en Landsréttur sneri þeim dómi við áfrýjun málsins sem fyrr segir.

Vísar Hæstiréttur til lagaraka við fyrri meðferðir málsins og rekur þar rökstuðning og vísanir á neðri dómstigum til tjáningarfrelsisákvæðis stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu.

Kveða málsmeðferðaraðilar Hæstaréttar leyfisbeiðendur byggja á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi. Aðferðafræði Landsréttar við mat á ummælunum eigi við um mat á gildisdómum og sé sú aðferðafræði andstæð dómaframkvæmd að mati áfrýjunarbeiðenda. Dómur Landsréttar sé þá að þeirra mati rangur og varði mikilvæga hagsmuni.

Segja ákvörðunaraðilar Hæstaréttar hvorki litið svo á, af gögnum málsins að ráða, að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi laga. Þá verði ekki séð að málsmeðferð neðri dómstiga hafi verið formlega ábótavant eða dómur Landsréttar verið bersýnilega rangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert