Tafir á uppbyggingu í Ártúnshöfða vegna reglugerða

Þorvaldur gerði sjálfbærnimarkmið að umræðuefni sínu á sjálfbærnidegi Landsbankans.
Þorvaldur gerði sjálfbærnimarkmið að umræðuefni sínu á sjálfbærnidegi Landsbankans. Ljósmynd/Sigurður Ólafur Sigurðsson

Tafir hafa orðið á íbúðauppbyggingu í Ártúnshöfðanum vegna reglugerða sem voru innleiddar frá Evrópusambandinu án þess þó að taka mið af íslenskum aðstæðum.

Þetta kom fram í erindi Þorvaldar H. Gissurarsonar, forstjóra ÞG Verks, á sjálfbærnidegi Landsbankans.

ÞG Verk er að byggja 145 íbúðir í Ártúnshöfða en nokkra mánaða seinkun er á verkefninu og vonast þeir nú til þess að geta byrjað að afhenda íbúðir sumarið 2026.

Þorvaldur greindi frá þessu verkefni hjá ÞG Verki en í reglugerðinni er varað við náttúrulegu snefilefni eins og vanadíumi og járni í jarðvegi. 

Sömu viðmið á Íslandi og Evrópu

Í reglugerðinni eru kröfur um hámarksgildi snefilefna í jarðvegi á íbúðasvæðum og eru viðmiðin tekin beint upp úr reglugerð frá ESB án tillits til efnainnihalds í jarðvegi á Íslandi, að sögn Þorvaldar.

Samkvæmt upplýsingum frá jarðfræðingum, segir Þorvaldur, er nauðsynlegt að gera bakgrunnsmælingar á jarðvegi á Íslandi til að skilgreina rétt viðmiðunargildi þar sem jarðvegurinn er öðruvísi á Íslandi en í t.d. Hollandi.

Það gerðu stjórnvöld og stofnanir á Íslandi ekki.

„Stjórnvöld og stofnanir hafa ekki gert þetta. Þau bara taka gildin eins og þau koma af kúnni beint frá Hollandi,“ sagði hann.

Þurfti að fjarlægja jarðveg sem mátti ekki fjarlægja

Í umræddu tilviki voru tekin sýni í jarðveginum og voru gildin örlítið yfir mörkum fyrir íbúðasvæði og langt yfir mörkum fyrir atvinnusvæði. Því þurfti að fjarlægja jarðveginn.

„En þá vill svo furðulega til að það er samtímis búið að setja kröfur um það að þurfi að fjarlægja jarðveginn, en á sama tíma eru settar aðrar kröfur sem eru þess efnis að það er bannað að fjarlægja hann,“ sagði hann.

Afleiðingin af því hafi verið margra mánaða píslarganga milli stofnana, tafir og gríðarlegur auka kostnaður.

„Til að setja þetta í samhengi mætti útskýra þetta þannig að húseigandi ætli sér að setja niður vorlauka eða rifsberjatré í garðinum sínum. Þá væru töluverðar líkur eru á því – hér á Íslandi – að gildi snefilefna í jarðveginum væru umfram hollensku viðmiðin.

Og þegar stungið væri niður skóflu þá kæmi mögulega – bara töluverðar líkur á því – upp það sem væri flokkaður sem mengaður jarðvegur. Nú má hvorki sturta aftur úr skóflunni né heldur fara með hann neitt annað,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert