Viðbragð við alvarlegri stöðu: Mikilvægt að bregðast rétt við

Þjónusta sem tekur mið af þörfum barna er einn mikilvægasti …
Þjónusta sem tekur mið af þörfum barna er einn mikilvægasti liðurinn í því að tryggja börnum viðeigandi og tímanlega aðstoð þegar hennar er þörf. Ljósmynd/Colourbox

Nýskipaður aðgerðahópur vegna ofbeldis í garð og á meðal barna hóf störf í dag.

„Með markvissri innleiðingu aðgerða, eftirfylgni og árangursmælingum er ekki einungis verið að mæta þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin hér á landi heldur gefst einnig kostur á því að varpa ljósi á umfang og eðli vandans,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Hópnum er falið að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem mennta- og barnamálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið kynntu á blaðamannafundi 25. júní og aðgerðum heilbrigðisráðuneytisins er lúta að heilbrigði og vellíðan barna.

Með aðgerðunum er ætlunin að sporna við þróun í átt að auknu ofbeldi, auka forvarnarstarf og leiða saman fjölbreytta þjónustu- og viðbragðsaðila í samstilltu átaki gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna á Íslandi, að því er segir í tilkynningunni. 

Mikilvægt að þjónusta taki mið af þörfum barna

Þar segir, að frá því að grunur vakni um að barn hafi orðið fyrir alvarlegu ofbeldi eða sé líklegt til að verða fyrir því, þá skipti sköpum hvernig brugðist sé við til þess að tryggja vernd, vellíðan og öryggi þess. Hið sama eigi við um barn sem hafi beitt eða sé líklegt til að beita ofbeldi.

Þjónusta sem taki mið af þörfum barna sé einn mikilvægasti liðurinn í því að tryggja börnum viðeigandi og tímanlega aðstoð þegar hennar sé þörf.

Nauðsynlegt að bregðast rétt við

Þá kemur fram, að mikil áhersla sé lögð á þétta og góða samvinnu allra þeirra sem komi að málefnum barna. Hópurinn er skipaður fulltrúum mennta- og barnamálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, Reykjavíkurborgar, Barna- og fjölskyldustofu, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, embættis ríkislögreglustjóra, lögregluembætta og Heimilis og skóla.

„Starfshópnum er ætlað að forgangsraða aðgerðum, móta áætlun um framkvæmd og innleiðingu þeirra, fylgja innleiðingunni eftir og mæla árangur. Með markvissri innleiðingu aðgerða, eftirfylgni og árangursmælingum er ekki einungis verið að mæta þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin hér á landi heldur gefst einnig kostur á því að varpa ljósi á umfang og eðli vandans og bregðast rétt við. Slíkt er afar þarft til þess að tryggja viðeigandi viðbrögð og úrræði, auk þess sem það dregur úr líkunum á ófyrirséðum neikvæðum afleiðingum inngrips,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert