Alvarlegt sjóatvik á Viðeyjarsundi

Aðeins munaði örfáum metrum að AIDAluna sigldi á Skarfagarð. Haki …
Aðeins munaði örfáum metrum að AIDAluna sigldi á Skarfagarð. Haki reyndi að bægja hættunni frá. Ljósmynd/RNSA

Litlu munaði að illa færi þegar skemmtiferðaskipið AIDAluna var að leggja frá Skarfabakka í Sundahöfn 14. júlí 2023.

Á leiðinni út fór skipið nærri Skarfagarði og bauju við Pálsflögu. Veður var NV 13-21 m/s og sjávarhæð 1,9 metrar yfir stórstraumsfjöru.

AIDAluna er rúmlega 69 þúsund brúttótonna skip og 252 metra langt. Farþegar voru 1.861 og í áhöfn voru 627.

Sama dag lenti annað skemmtiferðaskip, Silver Moon, í vandræðum í Sundahöfn og sigldi á hafnarkant. Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur tekið saman drög að lokaskýrslu og sent til umsagnar. Nánari atvik verða upplýst þegar sú skýrsla verður birt. Silver Moon er 40 þúsund brúttótonn.

Skömmu áður, eða 26. maí 2023, varð alvarlegt sjóatvik á sömu slóðum þegar litlu munaði að risaskipið Norwegian Prima strandaði við Viðey. Mikið hefur verið fjallað um það mál í fréttum.

Fékk ekki ábendingu fyrr en 8. ágúst

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RNSA), siglingasvið, fékk ekki ábendingu um atvikið fyrr en 8. ágúst 2023 en þá var AIDAluna í höfn erlendis. Upptökur úr gagnaritum (VDR) eru geymdar í 28 daga og leitaði því RNSA eftir aðstoð fánaríkisins (Ítalíu) við að tryggja þær. Fánaríkið sinnti ekki þeirri beiðni en í framhaldi var haft samband við hollenska systurstofnun RNSA þar sem skipið var þá statt í Rotterdam. Þeim var neitað um afrit úr skipinu á þeirri forsendu að atvikið hefði átt sér stað í íslenskri landhelgi en ekki hollenskri.

„Ítarlega rannsókn á stjórntökum var því ekki hægt að framkvæma heldur er stuðst við tiltæk gögn,“ segir í áliti RNSA um málið. Á síðasta fundi siglingasviðs 26. ágúst var málið afgreitt með bókun og málsatvik þar upplýst í fyrsta sinn.

Hefði atvikið verið tilkynnt tímanlega hefði verið hægt að framkvæmda ítarlega rannsókn

„RNSA dregur ekki úr alvarleika þess atviks sem fjallað er um. Vegna skorts á gögnum sem sýna fram á nákvæmlega hvaða samskipti áttu sér stað á stjórnpalli AIDAluna þegar skipið fór úr Reykjavíkurhöfn þann 14. júlí 2023 og stjórntök er ekki hægt að leggja fram nefndarálit,“ segir í bókun siglingasviðs. Hefði atvikið verið tilkynnt RNSA tímanlega hefði verið hægt að tryggja rafræn gögn og framkvæma ítarlega rannsókn.

AIDAluna lagði úr höfn klukkan 20. Skipstjóri hélt undirbúningsfund áður en lagt var af stað. Hann áætlaði að skipið gæti siglt án dráttarbáta færi vindhraði ekki yfir 11-12 m/s. Þar sem veðurmælir skipsins mældi meiri vind óskaði hann eftir aðstoð tveggja dráttarbáta, Magna og Haka.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert