Borgin lofar að byggja „þorp“ á bílastæði KSÍ

Reykjavíkurborg hefur uppi áform um að byggja bráðabirgðahúsnæði undir skólahald …
Reykjavíkurborg hefur uppi áform um að byggja bráðabirgðahúsnæði undir skólahald á bílastæði KSÍ. mbl.is/Sigurður Unnar

Björn Gunnlaugsson, skólastjóri í Laugarnesskóla, segir að borgaryfirvöld hafi lofað að byggja eins konar „þorp“ með bráðabirgðakennslustofum á bílastæði KSÍ við Laugardalsvöll undir skólahald næsta haust, á meðan allsherjar viðhald verði gert á skólanum.

Hann segist þó taka því loforði með fyrirvara í ljósi fyrri reynslu af samskiptum við borgina.

Eins og Morgunblaðið og mbl.is greindu frá í morgun hefur fjöldi kennara hrökklast úr starfi í skólanum vegna veikinda sem þeir telja að tengist mygluvandamálum.

Verktakafyrirtækið Efla birti svarta skýrslu um ástandið í Laugarnesskóla árið 2022. Þar kom fram að raki eða mygla hefði fundist í helmingi rýma í skólanum.

Verði af því að skólahald hefjist í „þorpinu“ haustið 2025 er það þremur árum eftir að skýrslan kom út.

Björn Gunnlaugsson er skólastjóri í Laugarnesskóla.
Björn Gunnlaugsson er skólastjóri í Laugarnesskóla.

Fengið litlar skýringar á töfum 

Einhverjar framkvæmdir hafa farið fram í millitíðinni í skólanum en Sigríður Heiða Bragadóttir, fyrrum skólastjóri sem hætti vegna veikinda við skólaslit 2023 kallaði það „plástraaðferð“ sem ekki hefði virkað. 

„Okkur hefur þótt þetta allt of langur tími og við höfum fengið litlar skýringar á því hvað veldur þessum töfum [á allsherjar viðhaldi í skólanum]. En mér hefur orðið ljóst að svo virðist sem eftir að borgarstjóri tilkynnti að til standi að byggja unglingaskóla í Laugardalnum þá fóru þessi mál af stað hjá okkur,“ segir Björn.

Vísar hann þar til hugmynda Einars Þorsteinssonar um að byggja unglingaskóla í Laugardal. Ekki er búið að samþykkja tillöguna í skóla- og frístundaráði en sá skóli myndi opna 2030 ef áætlanir ganga eftir.

Fremur neikvæðar umsagnir hafa borist um hugmyndina.

Laugarnesskóli þarfnast allsherjar viðhalds.
Laugarnesskóli þarfnast allsherjar viðhalds. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafa áður svikið loforð 

Björn segir að stjórnendum hafi verið tjáð að til standi að færa nemendur yfir í „þorpið“ á bílastæði KSÍ næsta haust. Hann leyfir sér þó að efast um að það muni standast í ljósi fyrri loforða.

„Ég er búinn að læra það af reynslunni að ég ætla ekki að segja að þetta sé greipt í stein fyrr en ég sé þessa kofa rísa. Það var búið að tjá okkur fyrir ári að bráðabirgðahúsnæði myndi vera tilbúið núna í haust og fengum ekki staðfest að svo yrði ekki fyrr en í janúar síðastliðnum. Því ætla ég að taka þessu öllu með ákveðnum fyrirvara,“ segir Björn. 

Ekki náðist í forsvarsmenn umhverfis- og skipulagssviðs við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert