Gosefni blása yfir höfuðborgina

Gosefni blása beint yfir höfuðborgarsvæðið eins og sjá má á …
Gosefni blása beint yfir höfuðborgarsvæðið eins og sjá má á korti Belgings. Skjáskot/Belgingur

Gasmengun frá eldstöðvunum á Reykjanesskaga fýkur nú beint í átt að höfuðborgarsvæðinu en vegna þess hve mikið hefur dregið úr virkni gossins eru gæði loftsins enn mikil.

Á spákorti Belgings sem sýnir dreifingu gosefna má sjá hvernig gosefni stefna nú beint yfir höfuðborgarsvæðið en á sama tíma eru allir mælar umhverfisstofnunar sem sjá má á loftgaedi.is enn grænir en það táknar mjög mikil loftgæði.

Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir þetta vera vegna þess að mikið hefur dregið úr virkni gossins við Sundhnjúkagíga. 

Spáin ekki röng

„Þetta passar í rauninni. Það er stíf suðvestan átt þannig loftmengunin frá gosinu berst norðaustur og áfram en hinsvegar hefur dregið talsvert úr krafti gossins síðustu tvo daga. [...] Eins og er er enginn af mælum Umhverfisstofnunnar að nema mengun frá eldgosi í neinu verulegu magni. Þetta er allt undir hættumörkum,“ segir Ingibjörg og bætir við:

„Spáin er í rauninni alveg rétt og það er mökkur yfir höfuðborgarsvæðinu en gildin sem eru að mælast eru samt svo lág.“ 

Þá segir hún að fyrir utan minni mengun frá gosinu geti líka verið að mökkurinn liggi hærra í loftinu og ekki við jörðu.

Nefið er næmt

Hún beinir því þó til fólks að vera vakandi og segir alveg geta passað ef einhverjir finna brennisteinslykt.

„Nefið í okkur er mjög gott í að finna brennisteinslykt og í rauninni betra en margir gasmælar,“ segir Ingibjörg.

Að lokum ítrekar hún þó að öll gildi séu enn „græn og góð“ en að Veðurstofan fylgist áfram með og sendi út tilkynningu ef það breytist.

Allir mælar sýna græn gildi á svæðinu.
Allir mælar sýna græn gildi á svæðinu. Sjáskot/Umhverfisstofnun
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert