Haustlægðin lætur vita af sér

Nokkrar björgunarsveitir hafa verið kallaðar út í dag.
Nokkrar björgunarsveitir hafa verið kallaðar út í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgunarsveitir á Norður- og Vesturlandi hafa haft nóg fyrir stafni í dag en nokkur óveðursútköll hafa komið þar á borð.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að flotbryggja hafi losnað í morgun á Reykhólum. Björgunarsveitin Heimamenn fór í að tryggja hana og var því verki lokið um tíuleytið.

Þá hafi Björgunarsveitin Skagfirðingasveit á Sauðárkróki verið kölluð út vegna þakplatna sem voru að fjúka. Einnig kom útkall vegna trampólíns sem hafði fokið til og þá slóst vinnulyfta utan í hús sem hún stóð upp við.

Í Grundarfirði fauk gámur utan í íbúðarhús og voru þar einnig þakplötur farnar að losna. Björgunarsveitin Klakkur var ræst út fyrir það verkefni.

Um útköllin segir Jón Þór að sem betur fer hafi ekkert stórt komið upp en að haustlægðin hafi nú aðeins látið vita af sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert