Það eru aldeilis glæsilegar hitatölur á Austurlandi nú í morgunsárið en á nokkrum stöðum er hitinn kominn yfir 20 stig og hann mældist 24,1 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði klukkan 6 í morgun.
Á Seyðisfirði mældist hitinn 23,5 stig og víða á þessu landsvæði eru hitatölur um og yfir 20 stig. Það er einnig hlýtt á hálendinu og til að mynda mældist hitinn 20,1 stig á Vatnsskarði eystra klukkan 6 í morgun.
Það er skýjað veður á Austurlandi og þó nokkur vindur en veðurspáin gerir ráð fyrir því að það létti til fyrir austan.
Á vefnum blika.is sem Einar Sveinbjörnsson stýrir segir í frétt í gær:
„Því má reikna með því í fyrramálið að við gætum séð hitatölur á stöku stað allt að 23 til 25 gráður. Einna helst undir bröttum fjöllum s.s. í Vopnafirði, á Borgarfirði, Seyðisfirði, á Dalatanga eða í Neskaupstað svo nokkrir líklegir staðir séu taldir þar sem hiti er mældur.“