„Við erum bara stolt af þessum fundi og horfum björtum augum fram á veginn og hlökkum til að halda áfram að vinna félaginu vel,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, um aukaaðalfund sem félagið hélt í gær.
Sigríður nefnir sérstaklega að ánægjulegt hafi verið hve margir hafi mætt á fundinn sem hún telur þann fjölmennasta í sögu félagsins.
„Það var auðvitað tekist á á fundinum enda eðlilegt að fólk geri það um ýmis mál en ég held að við höfum öll gengið sátt út af fundinum og gott að félagsmenn gætu hist, rætt saman og tekið lýðræðislega ákvörðun um mál sem jú, ekki allir voru sammála um,“ segir Sigríður.
Á fundinum í gær var umdeild lagabreytingartillaga stjórnar félagsins felld en hún fólst í því að afnema atkvæðisrétt lífeyrisþega í félaginu.
39% þeirra sem greiddu atkvæði vildu fella tillöguna en 59% vildu samþykkja hana, en aukinn meirihluta þarf til að breyta lögum félagsins.
Spurð hvort þessi niðurstaða hafi áhrif á það hvernig Sigríður sjái tillöguna segir hún:
„Það voru 60% fundarmanna sammála því að gera þessar breytingar og þetta var bara ein af 21 lagabreytingatillögum sem við gerðum, 19 voru samþykktar. Það er erfitt að breyta lögum Blaðamannafélagsins, það þarf tvo þriðju og það vantaði ekki mikið uppá að hún færi í gegn.
Það er meirihluti þeirra félagsmanna sem mætti á fundinn í gær sammála þeirri skoðun stjórnar að þetta sé nauðsynlegur liður í breytingum á umgjörð og starfsemi félagsins enda er þetta í fullu samræmi við það sem tíðkast í öðrum sambærilegum félögum.“
Þá segir Sigríður aðspurð að ekki hafi enn gefist færi á að ræða hvort tillagan verði lögð fram aftur á næsta aðalfundi félagsins.
„Nú munum við halda áfram okkar góðu vinnu sem stjórnin hefur verið að vinna að á undanförnum misserum og árum sem að við fundum ofboðslega mikinn stuðning við hjá fundarmönnum í gær,“ segir Sigríður.
Hún bætir við að stuðningurinn hafi haldið áfram eftir fundinn.
„Við höfum fengið nýja félagsmenn í dag sem að hafa lýst því yfir við mig að þeir séu að koma inn í félagið til að styðja það öfluga starf sem er nú í gangi hjá félaginu og þær breytingar sem hafa þegar verið gerðar og það finnst okkur alveg sérstaklega ánægjulegt.“