Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari kannast ekki við það að Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hafi þurft að líða ofsóknir og líflátshótanir frá Mohamad Kourani í garð hans árum saman, umfram þá dóma sem hafa fallið.
Þetta segir Sigríður í tilkynningu á vef ríkissaksóknara.
Kourani hefur tvívegis hlotið dóm fyrir hótanir í garð Helga. Á tíu daga tímabili í janúar árið 2021 sendi hann Helga sex tölvupósta með líflátshótunum í garð hans og í sumum tilvikum einnig fjölskyldu hans.
Svo þann 7. mars hótaði hann Helga ítrekað lífláti í afgreiðslurými ríkissaksóknara.
Ríkissaksóknari kveðst ekki kannast við önnur tilvik umfram þau sem Kourani hefur hlotið dóm fyrir.
„Ríkissaksóknara er ekki kunnugt um að umræddur einstaklingur hafi, síðan þau atvik áttu sér stað sem fjallað er um í ofangreindum dómi, haft uppi frekari líflátshótanir gagnvart vararíkissaksóknara eða að hann hafi nálgast eða setið um heimili hans, hvað þá linnulaust í 3 ár, líkt og ætla mætti af ummælum vararíkissaksóknara og umfjöllun fjölmiðla,” segir Sigríður í tilkynningu.
Helgi sagði í samtali við mbl.is í mars á þessu ári:
„Ég hef þurft að biðja börnin mín síðustu þrjú árin að opna aldrei útidyrnar áður en þau skoða hver er þar á ferð í myndavélakerfi fyrst.“
Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari lagði í síðasta mánuði til við dómsmálaráðherra að Helgi Magnús yrði leystur frá störfum tímabundið. Enn er ekki komin niðurstaða í það mál.
Sigríður segir að hún og ríkislögreglustjóri hafi brugðist strax við þegar Helga og henni fóru að berast tölvupóstar „frá tilteknum einstaklingi sem fólu í sumum tilvikum í sér hótanir í garð vararíkissaksóknara og fjölskyldu hans“.
Segir hún að gripið hafi verið til þeirra ráðstafana sem gerðar eru í tilvikum sem þessum en henni hafi ekki verið „kunnugt um að vararíkissaksóknara þættu þær ráðstafanir ekki fullnægjandi fyrr en hann lýsti þeirri skoðun sinni í fjölmiðlum nýverið“.