Björgunarsveitirnar sem kallaðar voru út fyrr í dag til að aðstoða göngumann í sjálfheldu á Kastárfjalli komu að manninum rétt í þessu.
Þetta segir í tilkynningu frá Landsbjörgu en þar segir sömuleiðis að maðurinn var orðinn nokkuð kaldur þegar að var komið.
Björgunarfélag Hornafjarðar og Björgunarsveitin Kári í Öræfum voru kallaðar út vegna málsins en þyrla Landhelgisgæslunnar var einnig ræst út með fjórum liðsmönnum björgunarsveita af höfuðborgarsvæðinu.
Í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, að maðurinn verið að klífa á vinsælum klifurleiðum fjallsins sem er austur á Stokksnesi, austan við Höfn í Hornafirði, og virðist sem einstaklingurinn hafi runnið í eggjagrjóti.
Í tilkynningu Landsbjargar segir að maðurinn telur sig geta gengið en ekki var talið öruggt að koma honum beint niður hliðina þar sem hann fannst.
„Eftir að hafa skoða mögulegar leiðir fyrir björgunarsveitir með manninn niður úr sjálfheldunni með því að fljúga dróna eftir hlíðinni þar sem maðurinn fannst, hefur verið ákveðið að koma honum áfram upp gilið og fara svo niður sömu leið og björgunarmenn komu að honum, en þeir komu í raun að honum ofan frá,“ segir í tilkynningunni.