Gert er ráð fyrir því að varðskipið Þór komi að Hlöðuvík á Hornströndum á hverri stundu en óljós neyðarboð bárust þaðan um hádegisbilið og talið er að erlendir ferðamenn sem eru þar í neyðarskýlum þurfi á aðstoð að halda.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við mbl.is að gert sé ráð fyrir að skipið komi í Hlöðuvík um 19.30 en ferðin hefur gengið vel og tekið styttri tíma en upphaflega var talið.
Þegar þangað verður komið verður reynt að ná samband við ferðamennina sem sendu neyðarboðið og aðstæður til að komast í land kannaðar.
„Fyrsta verkið hjá þeim verður að reyna að ná sambandi við þá sem sendu þetta kall á rás 16 sem er neyðarrásin. Það er bara fyrsta verk og síðan verður staðan metin í framhaldinu, það fer auðvitað eftir því hvernig vindar blása og þar fram eftir götunum,“ segir Ásgeir.