Sá lægsti sem mælst hefur í tvær aldir

Dæmigerð mynd frá Reykjavík. Vegfarendur að berjast áfram í roki …
Dæmigerð mynd frá Reykjavík. Vegfarendur að berjast áfram í roki og rigningu. Svona hafa ófáir dagarnir verið í höfuðborginni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýliðinn ágústmánuður var óhagstæður landsmönnum að öllu leyti. Það má lesa út úr tíðarfarsyfirliti mánaðarins sem Veðurstofan hefur birt.

Stærsta fréttin er sú að meðalloftþrýstingur var sá lægsti sem mælst hefur í Reykjavík frá upphafi mælinga fyrir rúmlega tveimur öldum, eða árið 1820.

Meðalloftþrýstingur mánaðarins mældist 994,5 hektópasköl (hPa) sem er 13,1 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á mörgum veðurstöðvum hefur hann aldrei mælst jafn lágur í ágúst.

Þessu fylgdi óvenjumikið hvassviðri í mánuðinum, einkum á norðanverðu landinu og Vestfjörðum. Vindur á landsvísu var 0,7 m/s yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Ágúst var kaldur og úrkomusamur. Víða var meðalhitinn sá lægsti sem mælst hefur í ágústmánuði á þessari öld og ágústúrkoman mældist óvenjumikil á fjölda veðurstöðva. Mikil vatnsveður ollu vandræðum í flestum landshlutum í mánuðinum, en þau orsökuðu m.a. skriðuföll, flóð og mikla vatnavexti í ám, segir Veðurstofan í tíðarfarsyfirlitinu.

Kaldur um allt land

Ágúst var kaldur um allt land. Víða var meðalhitinn sá lægsti sem mælst hefur í ágústmánuði á þessari öld. Til að mynda hefur meðalhiti ágústmánaðar ekki verið lægri í Reykjavík, á Akureyri og á Stórhöfða síðan árið 1993.

Meðalhitinn í Reykjavík mældist 9,9 stig sem er 1,2 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020 og 1,4 stigum undir meðallagi undanfarins áratugar. Raðast hitinn í 115.-116. sæti í sögu 154 ára mælinga.

Á Akureyri mældist meðalhitinn 9,3 stig í mánuðinum, eða 1,5 stigum undir meðallagi tímabilsins 1991 til 2020 og 1,6 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðarins var 9,5 stig í Stykkishólmi og 10,0 stig á Höfn í Hornafirði. Í Stykkishólmi raðast ágústhitinn í 109. sæti af 179 mælingum.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 25,3 stig á Skjaldþingsstöðum hinn 31. Lægstur mældist hitinn -3,6 stig á Reykjum í Fnjóskadal hinn 21.

Ágúst var mjög úrkomusamur um allt land, sérstaklega á norðanverðu landinu. Á nokkrum veðurstöðvum var ágústúrkoman með því mesta sem mælst hefur.

Úrkoma í Reykjavík mældist 87,2 millimetrar (mm) sem er 35% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 77,3 mm sem er um 87% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 79,6 mm og 175,6 mm á Höfn í Hornafirði.

Í Reykjavík mældust 155,7 sólskinsstundir í mánuðinum sem er 9,1 stund undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust 91,9 sólskinsstundir, eða 46,1 stund undir meðallagi.

Sumarið (júní til og með ágúst) hefur verið tiltölulega kalt og úrkomusamt, segir í tíðarfarsyfirlitinu.

Meðalhiti sumarsins það sem af er í Reykjavík var 9,8 stig sem er 1,0 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti sumarmánaðanna þriggja er í 110. til 111. hlýjasta sæti á lista 154 ára. Þessir þrír sumarmánuðir hafa ekki verið eins kaldir í Reykjavík síðan árið 1993.

Á Akureyri var meðalhitinn 10,0 stig, 0,5 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti sumarmánaðanna þriggja þar raðast í 76.-77. hlýjasta sæti á lista 144 ára.

Úrkoma í Reykjavík mældist 236,2 mm sem er 50% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Sumarúrkoman í Reykjavík er sú 5. mesta frá upphafi samfelldra úrkomumælinga frá 1920. Á Akureyri mældist úrkoma sumarmánaðanna þriggja 156,6 mm eða um 65% umfram meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Þar var sumarúrkoman sú 7. mesta sem mælst hefur þar frá upphafi mælinga 1928.

Sólskinsstundir mældust 464,1 í Reykjavík sem er 73,4 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 454,8 eða 25,6 stundum undir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Hjá Veðurstofu Íslands telst september til sumarsins og því verður það gert upp í mánaðarlok.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert