Sjálfbærnivottanir valdi hærra fasteignaverði

Þorvaldur sagði að ÞG Verk væri enn sem komið er …
Þorvaldur sagði að ÞG Verk væri enn sem komið er ekki farið að byggja sjálfbærnivottaðar íbúðir m.a. vegna þess að takmarkaður áhugi sé fyrir því að borga hærra verð meðal kaupenda. mbl.is/Þorsteinn

Forstjóri ÞG Verks segir að sjálfbærni sé raunhæft markmið í byggingariðnaði en á móti valdi sjálfbærnimarkmið hærri byggingarkostnaði og þar af leiðandi hærra fasteignaverði.

Þetta kom fram í erindi Þorvaldar H. Gissurarsonar, forstjóra ÞG Verks, á sjálfbærnidegi Landsbankans í gær.

Hann nefndi að ÞG Verk hefði unnið að mörgum verkefnum þar sem þess er krafist að fá Svansvottun eða Breeam-vottun.

„Við þekkjum því ágætlega til verka þar sem vottana er krafist og við þekkjum vel það aukna flækjustig og kostnaðarauka sem fylgir oft þessum verkefnum,“ sagði Þorvaldur. 

Takmarkaður áhugi á því að borga meira

Hann sýndi nokkur dæmi þar sem fyrirtækið kom að uppbyggingu þar sem krafist var vottana.

Hann bætti því við fyrirtækið hefði þó ekki byggt íbúðarhúsnæði með slíkum vottunum þar sem kaupendur hefðu takmarkaðan áhuga á því að borga aukalega fyrir hús með slíkum sjálfbærnivottunum.

„Okkur sýnist kannski eftirspurnin ekki alveg vera komin þangað. Hafandi sagt það þá meina ég það að kaupendur eru almennt ekki tilbúnir að borga eða greiða hærra verð og þann aukna kostnað sem þessu fylgir, en það kann kannski að breytast,“ sagði hann.

Stærsta sjálfbærnimálið að gera góðar byggingar

Nefndi hann þó að fyrirtækið væri sífellt að taka upp suma þætti í umræddum vottunum og koma því inn í sína framleiðsluferla.

„Stærsta sjálfbærnimálið í okkar huga er samt sem áður að byggja vandaðar byggingar sem að tryggja góða innivist, gott notagildi, sem standast tímans tönn og sem við getum boðið okkar viðskiptavinum á góðu verði,“ sagði hann.

Fékk verðlaun fyrir sjálfbærni en var gallaður

Hann benti á það að þó farið sé af stað í verkefni með göfug markmið þá gangi þau ekki alltaf upp. Nefndi hann til dæmis leikskólann Brákarborg sem fékk verðlaun fyrir sjálfbærni en reyndist svo gallaður.

Tæp tvö ár eru síðan sá leik­skól­i var opnaður og mikl­ar vænt­ing­ar voru bundn­ar við hús­næðið.

Rýma þurfti svo skólann þar sem burðarþol var ófullnægjandi og munu viðgerðir kosta að lágmarki tugi milljóna króna.

Reglugerðir frá ESB taki ekki mið af íslenskum aðstæðum

Þorvaldur sagði að það væri oft á tíðum hans upplifun að undirbúningur stjórnvalda væri oft lítill sem enginn, viðmiðunargildi almennt ekki staðfærð og reglur ekki aðlagaðar að íslenskum aðstæðum.

Þorvaldur gagnrýndi einnig að undanfarið væru að taka gildi umfangsmiklar og þungar kröfur sem ættu það sameiginlegt að eiga rætur að rekja til Evrópusambandsins.

mbl.is fjallaði til að mynda um það þegar Þorvaldur sagði að taf­ir hefðu orðið á íbúðaupp­bygg­ingu í Ártúns­höfðanum vegna reglu­gerða sem voru inn­leidd­ar frá Evr­ópu­sam­band­inu án þess þó að taka mið af ís­lensk­um aðstæðum.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert