Snúa líklega aftur á jökulinn þar sem einn lést

Í Breiðamerkurjökli. Mynd úr safni.
Í Breiðamerkurjökli. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrjú ferðaþjónustufyrirtæki bjóða upp á íshellaferðir á Kötlujökli á Mýrdalsjökli að sumri til. Framkvæmdastjóri Tröll Expeditions segir að fyllsta öryggis sé gætt og telur að fyrirtækið muni bjóða upp á íshellaferðir í Breiðamerkurjökli í framtíðinni, en þar lést einn ferðamaður nýlega.

„Það er gríðarlega mikið lagt í það að tryggja aðgengi og öryggi í öllum okkar ferðum. Við viljum meina það klárlega að það séu öðruvísi aðstæður akkúrat núna“ segir Gísli Eyland, framkvæmdastjóri Tröll Expeditions, spurður hvort að öryggi sé meira í Kötlujökli en í Breiðamerkurjökli að sumri til.

Meta frá degi til dags aðstæður óháð árstíma

Einn lést í íshellaferð í Breiðamerkurjökli í síðasta mánuði þegar ísfarg hrundi á tvo ferðamenn.

Í kjölfarið hefur komið fram gagnrýni á að farið sé í íshellaferðir á sumrin og sagt að öryggi sé ekki jafn mikið á þeim árstíma og á veturna.

„Það er alveg sama hvort að það sé sumar eða vetur, þarna eru fagfólk sem er að vinna og metur frá degi til dags hvað þurfi að gera til að tryggja öryggi. Það er ekkert farið í ferðir nema að við teljum að það sé öruggt,“ segir Gísli.

Hægt að tryggja öryggi á Breiðamerkurjökli

Vatna­jök­ulsþjóðgarður hef­ur óskað eft­ir því við viðeig­andi ferðaþjón­ustuaðila að ekki verði farið í ís­hella­ferðir á svæði þjóðgarðsins að svo stöddu.

All­ir hafa orðið við þeirri beiðni og þar á meðal Tröll.

„Á Breiðamerkurjökli höfum við verið með samstarfsaðila sem við höfum unnið með við framkvæmd íshellaferða. En við gerum ráð fyrir því að það opni á einhverjum tíma og eins hræðilegt og þetta slys var þá held ég að það sé klárlega hægt að tryggja örugga upplifun ferðamanna þarna,“ segir Gísli.

Bann við ferðum á sumrin ekki rétta svarið

Hann segir að bann við íshellaferðum á sumrin sé ekki rétta svarið. Aðalatriðið sé að fagmenn tryggi að fyllsta öryggis sé gætt.

„Íshellar geta verið hættusamir allt árið og það þarf bara fagfólk að meta það og tryggja aðgengi,“ segir hann.

Ef þið bjóðið upp á ferðir í Breiðamerkurjökli væri það þá á sama stað og slysið varð?

„Nei, ekkert endilega. Það er bara alveg óljóst,“ segir hann og bætir því við að ferðaþjónustufyrirtæki séu almennt í biðstöðu á meðan stjórnvöld gefa nánari upplýsingar um næstu skref.

Fólk átti sig ekki á því hversu margir vinna á svæðinu

Hann segir að það sé mikill mannskapur í Vík sem sé að vinna á svæðinu við íshellanna í Kötlujökli. Segir hann að oft á tíðum virðist svo vera sem fólk átti sig ekki almennilega á því hversu margt fagfólk sé að vinna á vettvangi við að tryggja öryggi og aðgengi.

Tröll, Katlatrack og Southcoast adventures bjóða upp á íshellaferðir í Kötlujökli.

Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli.
Frá aðgerðum björgunarsveita í Breiðamerkurjökli. Ljósmynd/Landsbjörg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert