Aðalmeðferð í máli þar sem maður er sakaður um tilraun til manndráps með því að hafa stungið mann tvisvar í öxl og síðu hefst á mánudaginn.
Árásin átti sér stað aðfaranótt 20. janúar en maðurinn var handtekinn samdægurs og hefur sætt gæsluvarðhaldi síðan og byggir á því að gæsluvarðhald sé talið nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verjandi hans er Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson.
Landsréttur staðfesti í nýlegum úrskurði sínum ákvörðun Héraðsdóms Reykjavíkur sem úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 23. september. Samkvæmt ítarlegri geðrannsókn dómkvadds matsmanns er maðurinn metinn sakhæfur.
„Þykir brot ákærða vera þess eðlis að það sé sérstaklega alvarlegt og því sé óforsvaranlegt að kærði gangi laus eins og sakir standa.“
Segir í úrskurðinum að rannsóknargögn beri með sér að árásarmaðurinn hafi veist að brotaþola algjörlega að ástæðulausu og tilviljun ein hafi ráðið því að brotaþoli varð fyrir henni.
Sá sem fyrir árásinni varð og vinkona hans lýsa atvikum með þeim hætti að þau hafi veitt ákærða athygli er þau voru á leið heim úr miðbænum þar sem hann hafi gengið á miðri götu og þeim fundist hann vera að stefna sjálfum sér í hættu.
Maðurinn sem varð fyrir árásinni reyndi að ná sambandi við manninn sem brást illur við og er borinn sökum um að hafa stungið brotaþola tvisvar sinnum í kjölfarið, annars vegar í öxl og hins vegar í síðu.
Brotaþoli hafi lagt á flótta undan honum en þá hafi árásarmaðurinn reynt að hlaupa á eftir honum. Í fyrstu hafi fórnarlambið og vinkona hans haldið að árásarmaðurinn hafi einungis slegið hann með hnefum í öxlina og síðuna en síðar hafi þau uppgötvað að hann hlaut stungusár á höggstöðunum.
Árásarmaðurinn kannast óljóst við að hafa hitt aðila sem hann lenti í útstöðum við en taldi þá hafa ráðist á sig og stungið sig í hendi. Kannast hann við að hafa hitt par sem hafi atast í sér en taldi það hafa verið annars staðar en þar sem honum er gefin sök að hafa ráðist á manninn.
Maðurinn sem varð fyrir árásinni hlaut opið sár á vinstri öxl, opið sár hliðlægt framanvert á brjóstkassa hægra megin og loft- og blóðbrjóst.
Í læknisvottorði segir að atlagan hafi verið mjög hættuleg og áverkar lífshótandi. Meiri líkur væru á því að áverkarnir myndu valda andláti ef maðurinn hefði ekki notið læknisaðstoðar í kjölfarið.
Á heimili árásarmannsins fannst blóðugur hnífur sem hann kannast við að hafa haft meðferðis umrædda nótt. Þá fannst blóð úr árásarmanninum, skófar sem samsvarar skóm sem hann var handtekinn í og sími hans á þeim stað sem fórnarlambið og vinkonan segja árásina hafa átt sér stað. Á fatnaði brotaþola fannst bæði blóð úr honum sjálfum og ákærða.
Segir í lagarökstuðningi að atlagan hafi verið „stórháskaleg, áverkar brotaþola alvarlegir og hending ein réði því að ekki fór verra.“