Tengsl á milli hins grunaða og aðila í bílnum

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það voru tengsl á milli þess sem grunaður er í málinu og aðila í bílnum en hver þau eru fer ég ekki út í og ekki tímabært að gera það,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan vinnur enn að rannsókn á hnífstunguárásinni á Menningarnótt.

Grímur segir að rannsókninni miði vel áfram en 16 ára piltur er grunaður um að hafa stungið þrjú ungmenni með hnífi þar sem þau sátu í bíl við Skúlagötu.

Pilturinn situr í gæsluvarðhaldi í fangelsinu á Hólmsheiði en 17 ára stúlka, Bryndís Klara Birgisdóttir, lést af sárum sínum nokkrum dögum eftir árásina. Piltur og stúlka sem voru með áverka eftir árásina hafa verið útskrifuð af sjúkrahúsi.

Krufning hefur farið fram

Í frétt ríkisútvarpsins í gær kom fram að sá grunaði hefði þekkt stúlkuna sem lifði árásina af.

Grímur segir að krufning hafi farið fram og er að vænta bráðabirgðaniðurstöðu úr henni mjög fljótlega að hans sögn.

Spurður hvað sé það helsta sem snúi að rannsókn málsins segir Grímur:

„Það er enn þá verið að tala við fólk sem kann að vera vitni að atburðinum eða aðdraganda hans og þá erum við að afla frekari gagna í málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka