Varðskipið Þór er nú á leiðinni vestur á Hornstrandir vegna neyðarkalls sem þaðan kom. Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, segir hvassviðri vera mikið á Vestfjörðum og að búið sé að virkja aðgerðastjórn almannavarna.
„Það er bálhvasst hérna og stendur út fjörðinn,“ segir lögreglustjórinn.
„Ein skúta fór upp í morgun og hún náðist. Það er önnur skúta laus og er upp í fjöru núna og við höfum áhyggjur af þeirri þriðju.“
Nefnir Helgi að of hvasst sé til að bjarga skútunni eins og er.
Að hans sögn er búið að virkja aðgerðastjórn og þá er varðskipið Þór á leiðinni vestur vegna neyðarkalls sem barst frá Hornströndum.
„Það kom neyðarkall en við vitum ekki hver neyðin er. Við höfum ekki náð sambandi við þá í rauninni þannig við getum ekki sagt mikið um það.“
Segir hann lögreglu fylgjast með þróun mála. Vonast er til að fólkið á Hornströndum sé í húsi og allt sé í lagi en Helgi tekur fram að ekki sé auðvelt að komast á staðinn vegna veðurs.