Vantar fjölskyldur í fyrsta skipti

Ingunn Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri AFS á Íslandi, með landakort samtakanna í …
Ingunn Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri AFS á Íslandi, með landakort samtakanna í bakgrunni. Ljósmynd/Aðsend

Alþjóðlegu fræðslusamtökin AFS á Íslandi leita nú áhugasamra fjölskyldna til að taka á móti átta skiptinemum sem fengu ekki pláss hér á landi vegna skorts á fósturfjölskyldum. Er þetta í fyrsta skipti í sögu samtakanna þar sem umsækjendum um skiptinám hér á landi er neitað með þessum hætti.

Í samtali við mbl.is segir Ingunn Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri AFS, að um sé þó að ræða færri skiptinema í ár en vant er.

„Það er einhvern vegin bara mikið áhugaleysi í ár og við erum ekki að fá viðbrögð við okkar ákalli til fóstursfjölskyldna. Við höfum alltaf fengið mikil viðbrögð og mikið um spurningar og margir sem að velta því fyrir sér hvort þeir eigi að slá til og margir sem að hafa gert það,“ segir Ingunn.

Þá nefnir hún að alltaf sé að verða þyngra og þyngra að finna fjölskyldur sem vilji taka á móti skiptinemum.

Er einhver útskýring fyrir því?

„Nei. Það eru kannski bara mínar heimatilbúnu skýringar og ég hef svo sem ekkert fyrir mér í þessu, en eftir Covid þá held ég að fólk hafi svona farið inn í sitt og kunnað því ágætlega og svo þegar allt opnast þá eru sumir sem að eru alveg á útopnu og geta ekki hætt að ferðast og njóta frelsisins á meðan aðrir eru ennþá inni í sinni skel og eru ekki tilbúnir til þess að fara út fyrir þægindarammann.“

Getur verið ótrúlega gefandi 

Framkvæmdastjórinn segir að mikið sé um að sömu fjölskyldur bjóðist til að taka á móti skiptinemum árlega og nefnir hún að myndast hafi hálfgert AFS-samfélag.

„Það er oft sem að fólk hefur farið sjálft eða sent börnin sín í skiptinám og vita hvað þetta getur verið ótrúlega gefandi og mikilvægt fyrir þroskann og gefur krökkum svo mikið að þau vilja leggja sitt af mörkum til þess að taka móti skiptinemum,“ segir Ingunn og bætir við.

„Eins líka að vita að fjölskyldan stækkar svo mikið og opnast svo mikið og lærir svo mikið á þessu. Þau vita hvað þetta skiptir marga máli og vilja taka þátt í þessu með okkur.“

Núna í ár hafi hins vegar ekki tekist að finna pláss fyrir alla þá sem vilja koma.

Sumir búnir að bíða í ár

Aðspurð segir Ingunn að ferlið á bakvið komu skiptinema sé misjafnt. Sumir séu þó búnir að bíða eftir að koma til Íslands í ár.

„Þau fara í gegnum þjálfun í sínu heimalandi þar sem að þeim er kennt að takast á við allskonar aðstæður og eru viðbúin að koma inn í eitthvað sem þau þekkja ekki. Þau eru tilbúin til að læra og þroskast. Það er búið að undirbúa þau fyrir þetta.“

Ingunn setti í gær færslu á Facebook þar sem hún óskaði eftir fjölskyldum sem gætu tekið við skiptinemunum, þó ekki væri nema tímabundið á meðan leitað væri að varanlegum fjölskyldum. Segist hún hafa fengið viðbrögð við færslunni, sem nú hefur verið deilt 125 sinnum, en ekkert sé þó frágengið.

„Það eru margir búnir að deila færslunni og ég er alveg afskaplega þakklát fyrir það. Ég hef fengið viðbrögð já, en það er ekkert sem er alveg frágengið. Fólk hefur verið að taka við sér og hefur haft samband við okkur og er að velta þessu fyrir sér en því miður er engin sem hefur gengið alveg frá þessu síðan að ég setti þetta inn,“ segir framkvæmdastjórinn og bætir við.

„Við þurfum að vera búin að ganga frá öllu endanlega, helst fyrir lok þessarar viku.“

Hver sem er getur boðið sig fram

Aðspurð segir hún hvern sem er geta boðið sig fram. Aðeins sé gerð bakgrunnskoðun vegna öryggis en annars geti hver sem er orðið fósturfjölskylda.

„Við erum með allskonar fjölskyldur. Hjón með tvö börn og hund og bíl. Eða par af sitthvoru kyninu, sama kyninu. Fólk með börn, fólk ekki með börn. Allskonar.“

Ingunn segir að tími skiptinema sé mislangur. Margir hverjir séu erlendis í þrjá mánuði en þó geti tímabilið náð upp í tíu mánuði hjá sumum. Þar á meðal þeirra átta krakka sem ekki hefur fundist pláss fyrir enn hér á landi en undirstrikar framkvæmdastjórinn að einnig sé verið að leita að bráðabirgðarfjölskyldum svo að svigrúm geti myndast fyrir leit að varanlegum fjölskyldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert