Vita vel hvað klukkan slær á Selfossi

Frá hægri: Bogi Karlsson úrsmiður, Sigríður Bogadóttir verslunarstjóri, Kristín Guðmundsdóttir …
Frá hægri: Bogi Karlsson úrsmiður, Sigríður Bogadóttir verslunarstjóri, Kristín Guðmundsdóttir og Karl Þorvaldsson, systursonur Boga mbl.is/Sigmundur Sigurgerisson

„Það stóð nú svo sem ekki til á efri árum að standa í þessu öllu saman, en húsið var orðið ónýtt og eitthvað urðum við að gera,“ segir Bogi Karlsson, úrsmiður á Selfossi, en fyrirtækið sem faðir hans, Karl R. Guðmundsson úrsmiður, stofnaði fagnar í dag, 5. september, 60 ára afmæli.

Afmælisárið er viðburðaríkt en starfsemin hefur tímabundið verið flutt að Eyrarvegi 38 á Selfossi. Úrsmíðastofa og verslun hefur í 58 ár verið til húsa á Austurvegi 11. Það húsnæði var orðið lúið og hefur verið rifið. Til stendur að reisa nýja fjögurra hæða byggingu, þar sem verslunarhúsnæði verður á neðstu hæð og 13 íbúðir á efri hæðunum þremur.

Karl úrsmiður á Selfossi, sem er 60 ára í dag, …
Karl úrsmiður á Selfossi, sem er 60 ára í dag, stendur fyrir byggingu nýs íbúðar- og verslunarhúsnæðis á Austurvegi 11. Tölvuteikning/Húsey

Stefnt að opnun eftir tvö ár

Bogi segir vonir standa til að hefja framkvæmdir á allra næstu dögum og stefnt sé að því að taka húsið í notkun árið 2026.

„Við verðum á neðstu hæðinni og annar aðili við hliðina með rekstur, sem við getum ekki upplýst um að svo stöddu,“ segir Bogi en íbúðirnar á efri hæðunum verða settar í sölu.

Bogi byrjaði snemma að vinna í verslun föður síns og lærði hjá honum úrsmíði. Karl hafði þá flust búferlum frá Reykjavík til Selfoss en enginn úrsmiður var starfandi í bænum á þeim tíma. Hafði Karl þá sinnt viðgerðum á úrum fyrir Sunnlendinga í nokkur ár. Var tekið á móti úrunum hjá Kaupfélagi Árnesinga og gerði Karl við gangverkið utan síns hefðbundna vinnutíma í Reykjavík.

Ekki hefur bæst við þriðji ættliður úrsmiða en Sigríður, dóttir Boga og Kristínar Guðmundsdóttur, sér um rekstur fyrirtækisins í dag. „Hún er framkvæmdastjórinn og ég er bara í viðgerðunum,“ segir Bogi en þau hjónin, hann og Kristín, sem er borin og barnfæddur Selfyssingur, eru enn eigendur fyrirtækisins. Tvær dætur Sigríðar hafa svo starfað í búðinni á sumrin og á meðan mesti hasarinn í jólaversluninni stendur yfir. Fleiri úr fjölskyldunni tengjast fyrirtækinu en systursonur Boga, Karl Þorvaldsson, á að baki 35 ára starfstíma. Fjölskyldan veit því vel hvað klukkan slær á Selfossi.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert