196 uppljóstrarar hafa starfað fyrir lögreglu

Alls hafa 196 uppljóstrarar starfað fyrir embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2011, þar af níu á þessu ári að því er fram kemur í svari dómsmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi.

Dagbjört Hákonardóttir þingmaður Samfylkingarinnar spurði Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra um fjölda uppljóstrara hjá lögregluembættum landsins frá árinu 2011. Fram kemur í svarinu, að uppljóstrarar hafi aðeins starfað fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Um er að ræða 152 karla og 44 konur.

Í viðkvæmri stöðu

Í svarinu segir að uppljóstrari sé í mjög viðkvæmri stöðu og beri lögreglu að viðhafa leynd um hver hann er. Ekki sé haldin skrá um það hvort grunaðir einstaklingar eða sakborningar í málum hafi fengið þá stöðu vegna upplýsinga sem stafa frá uppljóstrurum enda geti þær upplýsingar annaðhvort leitt til þess að rannsókn verði hafin eða nýst við rannsókn sem þegar er hafin.

Einnig er tekið fram að upplýsingar frá uppljóstrurum geti annaðhvort borist lögreglu að frumkvæði uppljóstrara eða að lögregla leiti eftir upplýsingum frá tilteknum uppljóstrurum sem ætla megi að búi yfir upplýsingum um tiltekna háttsemi sem til rannsóknar er.

Svar dómsmálaráðherra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert